Riaan frábær!

23 apr 2011 14:56 #91 by Villý
Replied by Villý on topic Re: Riaan frábær!
Heil og sæl

Gaman að sjá að einhverjir hafa verið að fylgjast með gangi mála hjá okkur á Vatnajökli.
Þeir félagar lögðu upp frá Skálum á Langanesi rétt fyrir hádegi í dag. Sjólag var gott og stefnan er að ná á Bakkafjörð í dag um kl 17. Þeir hafa verið að bíða lengi eftir réttum aðstæðum þar sem þeir eru enn að læra inn á hvorn annan og aðstæður hér á landi.

Ég skal svo pósta aftur í kvöld þegar þeir félagar eru komnir að landi.

Bestu kveðjur frá Þórshöfn

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

23 apr 2011 14:27 #92 by Gíslihf
Replied by Gíslihf on topic Re: Riaan myndband
Ég rakst á vel gert myndband sem lýsir undirbúningi þeirra félaga og endar þegar þeir eru að leggja í hann frá Húsavík.
Það er ljóst af þessu efni og framsetningu að ferðin snýst um meira en að róa trefjakeip umhverfis landið.
vimeo.com/22645373
Ekki missa af þessu.

Þegar ég skrifa þetta (23.4.11,14:30)eru þeir komnir um þriðjung leiðarinnar suður yfir Bakkaflóa frá Skálum til Bakkafjarðar.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

21 apr 2011 11:58 #93 by Sævar H.
Replied by Sævar H. on topic Re: Riaan frábær!
Þetta er orðið spennandi. Spottækið þeirra kom að Skálum um kl 10.30 í dag ,skírdag frá Þórshöfn. Mér finnst það vísbending um að þeir hafi lent að Skálum og séu að gera sig klára til framhalds þaðan... Við fylgjumst með. :)

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

21 apr 2011 11:47 - 21 apr 2011 13:53 #94 by Gíslihf
Replied by Gíslihf on topic Re: Riaan frábær!
Já þetta eru skemmtilegar getraunir hjá okkur.
Maggi hafði eftir Brad starfsmanni(Operations Manager) Riaans, að þeir hefðu lent á Skálum en Kristján Jónsson Mbl. hefur eftir Riaan að þeir hafi farið fyrir Fontinn og snúið við, vegna erfiðs sjólags. Þetta eru um 25 km hvort frásögnin sem er notuð.
Mér finnst frásögn Mbl. líklegri, vegna þess að sunnan við Langanes var hafaldan líklega 1,5 m úr suðri og enga frásögn er að finna um erfiða lendingu. Við Skála eru klettar eða hnullungar í fjörunni, eftir sjávararstöðu.
...
PS: Ég sé á Fésbokarsíðu Riaans frá þriðjudagskvöldi að það voru Skálar: "They have just reached the ruins of Skalar on the S side of Langanes Peninsula, next stop Bakkafjordur-
Riaan and Dan have conquered the hurdle of the dreaded Langanes Peninsula- it was a long, tough slog of 6 hours today with increasingly strong winds, but from now on they head south down the east coast."

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

20 apr 2011 21:39 - 21 apr 2011 07:27 #95 by Sævar H.
Replied by Sævar H. on topic Re: Riaan frábær!
Veit einhver hvernig sú hugdetta kom til hjá þeim félögum að róa tvímennt á opnum surfkayak umhverfis Ísland-við vetraraðstæður ? En þessi vefur ber það hressandi nafn "Riaan frábær" Ég játa það að mér finnst alveg frábært að fylgjast með. Ekki síst vegna þess að þetta hefur gengið áfallalaust hjá þeim-á sjó. En án gamans-vonandi fer veður og sjólag að skána hjá þeim. Þessi vetur -frá jólum- hefur verið sá vinda og sjólags erfiðasti í a.m.k 10 ár...En við fylgjumst með þeim köppum. Þeir voru að prófa Spottækið sitt á götum Þórshafnar í dag og það virðist virka. :P

21.04.2011
Það er gott viðtalið við þá félaga í Mogganum í dag. Þeir eru hressir þrátt fyrir mótlæti í veðri, sjó og straumum. Eitthvað misræmi er í frásögn Mogga og kemur fram í viðtalinu við Riaan. Þeir réru um 25 km í gær frá Skoruvík og fyrir Font. Þetta er sú vegalengd sem er til Skála á sunnanverðu Langanesi. Þannig að þeir virðast hafa náð sínu dagstakmarki. Þeir eru því komnir að Skálum sé þetta rétt. Riaan lýsir þessum róðri sem mjög erfiðum vegna vinds,sjólags og strauma. Það er klárlega ekki orðum aukið.
Þeir virðast því hafa verið sóttir á bíl og dvelja á Þórshöfn. En þetta skýrist þegar þeir leggja í hann á ný...

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

19 apr 2011 22:46 #96 by Gíslihf
Replied by Gíslihf on topic Re: Riaan frábær!
Þetta er erfitt tíðarfar núna, en það var blíða þegar ég var að róa fyrir Langanes.

Það er mér í fersku minni að ég var meira sofandi en vakandi síðustu tvo tímana áður en ég koma að Skálum undir morgun. Þá hafði ég síðast tjaldað þrem dögum fyrr í Núpskötlu þar sem Gunnar Ingi kom óvænt í tjaldstað. Ég svaf 1-2 tíma í fjörunni á Rifstanga, var hálfan dag að stússast á Raufarhöfn, næstu nótt svaf ég eina klst. á klöppum undir bjargi á Langanesi með bátinn í toglínunni, annars var ég á ferðinni báðar næturnar og ekki gott að segja hvort ég var meira svefndrukkinn eða ölvaður af fegurð sumarnæturinnar.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

19 apr 2011 21:38 #97 by Sævar H.
Replied by Sævar H. on topic Re: Riaan frábær!
Þegar okkar hringfari réri í einum legg frá Raufarhöfn og að Skálum ,alls 85 km róður-þá naut hann fylgdar hvala. Þannig að það er ekki óalgengt að hringfarar fái fylgd á róðri um Langanes. ;)

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

19 apr 2011 19:23 #98 by maggi
Replied by maggi on topic Re: Riaan frábær!
Þeir félagarnir lentu að Skálum um kl 18 í dag , ég heyrði í þeim áðan og fengu þeir fylgd alla leið .
Þeir eiga von á nyju spot tæki þá lagast þetta væntanlega að hægt verði að fylgjast með þeim.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

18 apr 2011 23:04 #99 by Gíslihf
Replied by Gíslihf on topic Re: Riaan frábær!
Sé þessi staðhæfing um 70% og 30% nálægt lagi, þá vantar eitt inn í dæmið, það er hve mikil vinna er að róa 2ja manna kæjaka. Ef við gerum ráð fyrir að það sé eins og að róa 1 2/3 (1,67) eins manns kæjökum þá gerir hlutfallið 30/70 50% afköst á Dan og 117% afköst á Riaan miðað við aðra ræðara, en hlutföllin 50/117 og 30/70 eru nær jöfn.
Eru þeir félagar eru líklegir til að ljúka verkefninu? Riaan hefur klárað það sem hann byrjaði hingað til og sá sem heldur áfram og gefst ekki upp á mikla möguleika, þó ekki alla. Það er hægt að lenda á vegg sem maður kemst ekki yfir. Í hagstæðu veðri og sjólagi er þessi kæjaki annarra kæjaka ofjarl í hraða en í ólgusjó annarra eftirbátur.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

18 apr 2011 22:10 #100 by Orsi
Replied by Orsi on topic Riaan frábær!
Þarf Riaan að annast 70% af róðrinum? Látum það ekki verða til þess að við hröpum að ályktunum að svo komnu máli. Hver veit nema hann hafi þurft að annast 90% af róðrinum í upphafi og sé núna kominn niður í 70%. Það bendir til þess að Dan sé í framför og það skiptir máli.

En ég veit þetta ekki, bara að velta upp möguleikum með opnum huga. Þetta verkefni þeirra er allt mjög ólíkt því sem íslenska kayaksamfélagið á að venjast. Maður getur ekki ætlast til að þeir leysi verkefnið eins og það hefur verið gert hingað til. Hér eitthvað nýtt á ferðinni. Gæti virkað og gæti misheppnast. Þeir hafa aðeins varið 25% af fyrirhuguðum tíma sínum. Það er en nóg eftir í pottinum ef út í það er farið.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

18 apr 2011 18:30 #101 by Sævar H.
Replied by Sævar H. on topic Re: Riaan frábær!
Eitthvað er grunnurinn að þessum hringróðri umhverfis Ísland í lok vetrar einkennilegur. Tveir á tveggjamanna opnum kayak og annar þeirra hefur aðeins 30% af róðrarorkuninni sem þarf.
Þeir róa aðeins þegar vel viðrar til sjávar og áætla meðalróður 21 km /dag. Þeir róa aðeins milli 10-18 að deginum-þegar gefur.Suðurströndin gæti veitt þeim margra mánaða bið. Hvað segir hringræðari með reynslu um þetta ferðalag þeirra ? Er þetta gæfulegt ? :(

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

18 apr 2011 17:46 #102 by maggi
Replied by maggi on topic Re: Riaan frábær!
Það er planið hjá þeim að reyna við Langanesið á morgun 19 april
þeir fá fylgd hjá björgunarsveitinni og ætla að reyna að klára nesið þannig að þeir geti haldið áfram meðframm landi næstu daga.
Þeir eru komnir með netta innilokunarkend á að vera fastir þarna en geta ekki tekið neina sjensa þar sem Riaan þarf að sjá um 70% af róðrinum .

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

18 apr 2011 11:24 #103 by Gíslihf
Replied by Gíslihf on topic Re: Riaan frábær!
Enda þótt lítið sé róið þessa dagana á Langanesi, þá er "áhöfnin" (crew), sem ætlar að segja söguna í máli og myndum að nota tímann. Ég datt ofan á þessar myndir á slóð sem var í Twitter á síðu Riaan's:
www.icelandinakayak.com/

Á fyrstu myndunum sést niður í súlnabyggðina á Stóra karli undir Skoruvíkurbjargi. Ég man ég var þar að morgni og starði lengi upp í þessa heillandi súlnabyggð og hlustaði á samkór þeirra - en enginn var þar uppi til að taka mynd af litlum kayak langt fyrir neðan! Ég vona að þessi "áhöfn" hafi ekki sleppt slíku myndefni í þetta sinn.

Súlan er félagslynd og er aðeins á stöðum sem þessum. Næsta byggð er í Skrúð, síðan í fjórum úteyja Vestmannaeyja og loks í Eldey. Ég fann góða mynd á netinu af Stóra Karli og þar á eftir eru myndir frá Skálum og víðar af Langanesi:
www.pbase.com/bolli/image/126891149

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

17 apr 2011 18:37 #104 by olafure
Replied by olafure on topic Re: Riaan frábær!
Surfski eru til í mörgum útfærslum og þau eru heppileg til margs brúks. Ég prófaði mjög stöðugan surfski kayak í svíþjóð sem er mjög skemmtilegur í róðri og stöðugur. Hægt er að fá slíka báta með hólfum til að geyma farangur. Með kuldan þá reynir einna mest á fótabúnaðinn því fæturnir eru mikið á kafi í köldum sjónum. Ég er búinn að vera að róa í vetur með fæturnar í klakabrynju og það eina sem hefur reddað mér er góður galli og tvö pör af ullarsokkum. Í Ellingsen hafa selst nokkrir veiðikayakar sem eru opnir, stuttir og breiðir og mig grunar að þeir sem eru að kaupa þá ætli sér að róa út á ballarhaf og veiða í soðið. Ég legg áherslu á að þó að þessir bátar séu notaðir töluvert erlendis við veiðar þá þarf samt mun betri klæðnað og töluverða þekkingu á aðstæðum til að athafna sig á þeim á sjó við Ísland. Sjálfur hef ég áhuga á að veiða á opnum kayak en ég myndi velja mér aðra týpu þá sem er til sölu í ellingsen.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

17 apr 2011 13:07 #105 by Gíslihf
Replied by Gíslihf on topic Re: Riaan frábær!
Ég fylgdist líka spenntur með Vilborgu Örnu og félögum frá því ég tók eftir SPOT merkinu suður af Esjufjöllum og norður að Snæfellsleið. Þessi næturganga vakti undrun mína - maður er alltaf spenntur fyrir svona leiðöngrum og þrekraunum.

Þessi bátur er 2ja manna útgáfa af "surfski" eftir því sem ég kemst næst, þó með búnaði til að setja hlíf eða svuntu yfir opið að mittinu, en þó ekki alveg til að loka eins og við erum vön. Það er hægt að stökkva nánast upp í sætið þegar rennt er úr fjöru og vera snöggur að vippa sér upp eftir veltu (með styrk og æfingu), eru mun hraðskreiðari en ferðabátar okkar en eru hins vegar með þyngdarpunktinn ofar og því valtari og erfiðari í slæmu sjólagi, þó eru þeir góðir og hraðir á lensi og öldureið undan öldunni. Kæling ræðarans er mikil en með jafnri áreynslu, í ullarnærfötum og góðum þurrgalla með öndun ætti það að ganga. Þetta segi ég allt án þess að hafa reynt það sjálfur, það eru aðeins 2-3 úr okkar hópi sem hafa reynslu af slíkum bátum og er Ólafur Einarsson einn þeirra.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum