Erfiðleikastig ferða á vegum Kayakklúbbsins

Kayakferðir geta verið áhættusamar og því er mikilvægt að fólk velji sér ferðir í samræmi við eigin getu. Því hefur Kayakklúbburinn sett fram viðmið um erfiðleikastig ferða. Hér er ekki tekið mið af veðurfari eða ölduhæð en fararstjóri getur hækkað erfiðleikastig fyrir róður ef útlit er fyrir slæm veðurskilyrði. Kayakklúbburinn flokkar erfiðleikastig ferða á vegum klúbbsins á eftirfarandi hátt:

 

Erfiðleikastig 1  

Stuttar dagsferðir um svæði nálægt þéttbýli þar sem auðvelt er að taka land og kalla eftir aðstoð. Ferðir á stöðuvötnum og á sérstaklega skjólsælum svæðum.

Lágmarkskröfur um hæfni: Að þátttakendur hafi kynnt sér félagabjörgun og helstu öryggisatriði sem varða kayakróður.


Erfiðleikastig 2  

Lengri dagsferðir eða dagsferðir um svæði utan alfaraleiðar. Einnig ferðir sem taka fleiri en einn dag ef dagleiðir eru stuttar.

Lágmarkskröfur um hæfni: Að þátttakendur hafi æft félagabjörgun og geti róið a.m.k. 20 km á einum degi.


Erfiðleikastig 3

Ferðir þar sem þvera þarf firði eða róa um svæði þar sem langar vegalengdir eru milli landtökustaða.

Lágmarkskröfur um hæfni: Að þátttakendur hafi æft félagabjörgun, séu byrjaðir að tileinka sér rétta róðratækni, stuðningsáratök og geti róið 20 - 30 km á dag


Erfiðleikastig 4

Ferðir um svæði sem eru þekkt fyrir erfitt sjólag. Langar ferðir og ferðalög, einnig ferðir sem farnar eru um vetur.

Lágmarkskröfur um hæfni: Að þátttakendur hafi góð tök á veltu, félagabjörgun, stuðningsáratökum og róðrartækni og geti bjargað sjálfum sér og öðrum við krefjandi aðstæður.