Ólafur Einarsson hefur tekið forystuna í kappinu um Íslandsmeistaratitilinn eftirsótta eftir sigur í Bessastaðabikarnum um helgina. Keppinautar hans eru þó ekki langt undan. Enn á eftir að keppa fyrir vestan í 10 km róðri og í Hvammsvíkurmaraþoninu og því ljóst að keppnin er síður en svo búin og hefur hún raunar sjaldan verið eins spennandi.
Hverjum keppanda er hollt að líta á keppnisreglurnar og reglur um stigagjöf sem er að finna undir Keppnir - Íslandsmeistarakeppni. Samkvæmt þeim vinna menn sér inn 100 stig fyrir sigur, 80 stig fyrir 2. sæti og 60 stig fyrir 3. sæti. Röð manna í efstu sætum getur þar af leiðandi breyst hraðar en gengi krónunnar og er þá mikið sagt. Útkoman í hverju móti fyrir sig ásamt heildastöðu er hér að neðan.
Rúnar Pálmason
Nú er skyldumæting í Jónsmessuróðurinn hjá Pétri í Hvammsvík, mánudagskvöld 23. júní. Veðurspá er með besta móti, logn og blíða. Þetta er einn af þeim róðrum sem eru alger höfuðsnilld við aðstæður eins og spáð er fyrir kvöldið. Pétur fýrar upp í grillunum um áttaleytið og þegar áti er lokið og búið að kveikja í Jónsmessukestinum þá verður róið inn í nóttina og veltan tekin í dögginni einhvers staðar á góðum stað.
