Þetta hafðist. Maggi útvegaði tvo auka plast Romany og við fórum þrír fyrsta legg á föstudagskvöldinu (9.júní 2017), ég, Bjössi og Tobbi. Við skildum bíl eftir við gömlu Markarfljótsbrúnna en fórum svo upp í Bása þar sem var sett á flot. Fyrsti leggur var 30km og vegna þess að ég vissi ekki hvernig myndi ganga niður sandana tók ég allan viðlegubúnað með og báturinn var þ.a.l mjög þungur. Það gerði að verkum að nokkrum sinnum þurfti ég að standa upp og færa bátinn þegar ég rak upp á grynningar. Áin skiptist reglulega í tvennt og stundum þrennt og þá þurfti að meta mjög fljótt hvaða áll væri vatnsmestur því að þeir minni gætu helmingast neðar eða sameinast öðrum. Nokkrum sinnum tókum við ranga leið en sluppum við mikið basl, myndi samt ekki mæla með þessu fyrir valkvíðna Klukkan var orðinn hálftvö um nótt þegar við við komum að bílnum en þá áttum við eftir að keyra aftur uppí Bása, tjalda og grilla. Held að klukkan hafi verið orðin sex um morgun þegar ég lagðist á koddan eftir frábæran dag.