Níu ræðarar luku keppni í Bessastaðabikarnum sem haldinn var við ágætar aðstæður á laugardag. Ólafur B. Einarsson hafði betur gegn sínum skæðasta keppinauti, Haraldi Njálssyni og fékk Ólafur aftur afhentan Bessastaðabikarinn sem hann hafði látið í hendur mótstjóra um tveimur klukkustundum fyrr. Eftir mót var keppendum boðið í kaffi til forsetans, þ.e. Tryggva Tryggvasonar forseta kayakklúbbsins Sviða, og þeir sem ekki þurftu að drífa sig í útskriftarveislur nutu dýrindis kaffiveitinga. Ólafur hefur nú 280 stig eftir þrjár keppnir en Haraldur hefur 180 stig eftir tvær keppnir. Í þriðja sæti er Hilmar Erlingsson með 120 stig úr tveimur keppnum. Spennan á toppnum er mikil og ekki er síður hörð keppni um næstu sæti þar á eftir. Tvö mót eru eftir í sjókayakbaráttunni og greinilegt að allt getur gerst.
