top of page

Öryggisstefna klúbbferða - sjókayak

Hópferðir Kaykklúbbsins eru ýmist dags- eða helgarferðir á vegum Ferðanefndar klúbbsins. Ferðirnar eru ætlaðar félagsmönnum, en tengdum aðilum utan klúbbsins er heimil þátttaka liggi fyrir samþykki Ferðanefndar. Félagsmenn hafa þó forgang ef þörf er á fjöldatakmörkunum.

Klúbbmeðlimir skulu velja sér ferð í takt við auglýst erfiðleikastig ferðar (sjá skilgreiningar ferða á heimasíðu), og ekki óska eftir þátttöku sé þeim sjálfum ljóst að þeir uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar skv. erfiðleikastigi. Slík þátttaka getur ekki aðeins stofnað þeirra eigin öryggi í hættu, heldur einnig raskað ferðaáætlun og spillt ferðaupplifun annarra þátttekenda.

Áhersla er lögð á að allir sem koma að skipulagningu og stjórn ferða á vegum klúbbsins eru fyrst og fremst áhugamenn um kayakíþróttina, en ekki leiðsögumenn að atvinnu.

Fyrir allar ferðir er skipaður einn fararstjóri og einn róðrastjóri. Fararstjóri getur þó einnig tekið að sér hlutverk róðrarstjóra ef viðkomandi er samþykktur á róðrastjóralista Kayakklúbbsins.

Hlutverk fararstjóra:
 

  1. Auglýsa ferð og gera grein fyrir ferðatilhögun og erfiðleikastigi með góðum fyrirvara, og gefa áhugasömum færi á að senda fyrirspurnir um eðli og umfang ferðarinnar.​​

  2. Sjá um undirbúning og fer með alla stjórn á skipulagi ferðar. Þar má nefna skráningu og mat á hæfni þátttakenda, veitir upplýsingar um nauðsynlegan búnað, tíma, upphafs- og endastaðsetningu ferðar, gististaði, ber ábyrgð á að fá samþykki eigenda/ábúenda ef það á við, sér um skipulag á flutningum vegna bíla, fræðslu um náttúru og sögu, skipuleggur sameiginlega dagskrá, grill og annað þess háttar.

  3. Tryggja að í ferðum séu hæfilega margir ræðarar með reynslu til að annast eða aðstoða við róðrarstjórn og aðstoða fararstjóra með utanumhald ferðar. Fáist ekki reyndir ræðarar til að vera með í för er fararstjóra heimilt að aflýsa ferð undir hans forsjá.

  4. Fyrir utan almenna upplýsingagjöf í aðdraganda ferðar skal fararstjóri halda örstuttan upplýsingafund á vettvangi áður en hópurinn ýtir á flot. Þar skal gera hópnum grein fyrir hverjir gegna hlutverkum róðrarstjóra og sérstakra aðstoðarmanna ef einhverjir eru. Tilgreindur skal tímarammi róðurs dagsins og farið yfir nýjustu veðurspá og metin áhrif hennar á sjólag. Þá skal árétta helstu öryggisatriði er ferðina varðar sem almennt eru þau sömu og tiltekin eru í öryggisstefnu félagsróðra sem má finna undir „Öryggismál“ á vefsíðu klúbbsins. Einnig skal fararstjóri tryggja að nauðsynleg öryggis- og fjarskiptatæki sem og sjúkragögn séu með í för og upplýsa hvar þau er að finna.

Róðrarstjóri:

Vinnur skv. skipulagi fararstjóra en tekur sjálfstæðar ákvarðanir um öryggismál, sem eðlilega geta orðið til þess að fararstjóri þurfi að breyta ferðaáætlun. Róðrarstjóri skal vera á samþykktum róðrastjóralista Kayakklúbbsins og vinna skv. öryggisstefnu klúbbsins sem tilgreind er í öryggisstefnu félagsróðra.

Róðrarstjóri hefur aðgang að VHF talstöð í eigu klúbbsins í öllum þeim ferðum sem Ferðanefnd skipuleggur. Jafnframt geymir formaður Ferðanefndar tvær UHF talstöðvar í eigu Kayakklúbbsins.

 

Allir þátttakendur:

Allir þátttakendur skulu kynna sér útbúnaðarlista á heimasíðu klúbbsins og búa sig sem best út frá upplýsingum sem þar er að finna. Í ferðum Kayakklúbbsins er skylda að nota björgunarvesti og sjókayak með a.m.k. 2 lokuðum hólfum fyrir utan mannop og með dekklínum.

Gerðar eru kröfur til allra þátttakenda í sjó- og vatnaróðrum að þeir hafi farið á sjókayak nokkrum sinnum og/eða sótt byrjendanámskeið. Eindregið er mælt með að allir þátttakendur hafi tekið a.m.k. eina björgunaræfingu á árinu á sjó.

Þeir nýliðar sem aldrei hafa ferðast með klúbbnum, lengra eða styttra, skulu gera grein fyrir reynslu og búnaði sínum með því að senda fararstjóra tölvupóst eða með símtali. Þátttakendur eru hvattir til að skrá sig tímanlega í ferðir til að auðvelda fararstjóra skipulag.

Ábyrgð:

Ávallt er reynt eftir bestu getu að tryggja öryggi allra í ferðum klúbbsins. Hins vegar skal skýrt tekið fram að kayakræðari í hópferð á vegum Kayakklúbbsins ber alltaf sjálfur ábyrgð á eigin öryggi. Hann getur ekki varpað þeirri ábyrgð á samferðafólk sitt, Kayakklúbbinn, stjórn hans né þá sem tekið hafa að sér stjórn ferðarinnar fyrir hönd Kayakklúbbsins, og því ekki hægt að gera þessa aðila skaðabótaskylda ef slys verða í ferðum. Eins og í félagsróðrum klúbbsins skulu allir ræðarar ávallt reyna sitt besta til að tryggja öryggi sitt sem og annarra í hópnum, og vera meðvitaðir um að veita öðrum aðstoð sé þess þörf eða óskað. Því beinir Kayakklúbburinn þeim eindregnu tilmælum til allra þátttakenda að þeir fylgist hver með öðrum í anda góðrar félagavitundar og hafi eigið öryggi sem og hópsins alltaf í fyrirrúmi.

bottom of page