Eins og dagskráin mælir fyrir um verður ræst í hinu krefjandi og skemmtilega Hvammsvíkurmaraþoni laugardaginn 27. ágúst næstkomandi. Sú breyting hefur verið gerð að í stað Haustródeós verður blásið til Tungufljótskappróðurs sem er ekki síður skemmtilegur. Í báðum keppnum ræðst hverjir verða krýndir Íslandsmeistarar!
Maraþonróður er e.t.v. ekki fyrir hvern sem er en Hvammsvíkurmaraþonið er engu að síður á færi flestra hraustra ræðara. Fyrir þá sem ekki vilja róa alla leið er boðið upp á liðakeppni og rær þá hver liðsmaður einn legg af þremur. Lið mega vera blönduð, þ.e. skipuð bæði körlum og konum. Þátttaka í þoninu er fínasta skemmtun sem sést best á því að menn mæta í það ár eftir ár. Þar að auki er boðið upp á sérdeilis ljúffengar samlokur í skyldustoppunum ásamt gosi að eigin vali og í markinu er boðið upp á ljúffengustu kjötsúpu sem fyrirfinnst norðaustur af Laxárvogi (þann daginn a.m.k).