Hringróður um Ísland ,2013

16 maí 2013 22:00 - 19 maí 2013 08:35 #91 by Sævar H.
10. róðrarleggur : Selvogur- Hafnir

Krísuvíkurberg- horft í vestur

Mynd: Sævar Helgason

Snemma morguns þann 17.maí 2013 áætlar Guðni Páll að leggja upp frá Vogsósum í Selvogi , þar sem hann lauk sínum 9. róðrarlegg í dag 16. Maí.
Og róðraráætlunin er stórbrotin- að komast fyrir Reykjanesið og lenda annaðhvort í Stóru-Sandvík sem er 60 km róður eða fara alla leið í Hafnir sem er 70 km róður.
Veðrið til lofts og sjávar verður mjög gott .
Stillt í sjó-svona eins og á myndinni fyrir ofan- og hægviðri.
En Guðni Páll verður alltaf að meta sitt eigið álag og stilla róðri á þeim nótum.
En frá Selvogi að Grindavík eru um 36 km og hefst á að róa með 20 km löngu Krísuvíkurbergi.
Í Grindavík getur hann tekið góða hvíld meðan beðið er eftir réttu sjávarfalli fyrir Reykjanesið.

Fréttir af róðrinum
Kl. 09:14 17. maí
Guðni Páll lagði upp frá Vogsósum í Selvogi um kl 9:00 og stefnir nú að Krísuvíkurbergi . Veður er gott og sjórinn stilltur. Besta róðrarfæri sem Guðni Páll hefur fengið á allri sinni löngu róðrarleið- hingað til. Vonandi nýtist það honum vel. En eins og fram hefur komið eru lófarnir orðnir sárir eftir löng fangbrögð við árina... Hugsum til hans.

Kl. 11: 57
Guðni Páll hefur nú farið framhjá Krísuvíkurbergsvita og er nú við Krísuvíkurbergið sem myndin hér að ofan er af, í Hælvík. Róðurinn gengur mjög vel hjá honum . Hann heldur 6.5 km/klst meðalhraða og hefur róið um 19 km . Hann á því eftir um 18 km róður til Grindavíkur -fari hann styrstu leið.
Hann gæti því verið í Grindavík um kl. 14:40 :)

Kl. 14:45
Guðni Páll er lentur í Grindavík í litlum og fallegum vogi sem heitir Litlabót. Glæsilegt hjá Guðna Páli. Búinn að róa frá Vogsósum í Selvogi á rúmum 5 klst.
Á tímum áraskipanna höfðum menn þann háttinn á ef átakaróður var framundan- þá spýttu menn í lófana.
Skyldi Guðni Pál hafa frétt af þess gamla sjómannaráði ?

Kl. 17:36 17. maí
Þegar Guðni Páll hafði hvílst í voginum fallega við Grindavík-Litlubót- lagði hann upp á ný um kl. 17:05 og stefnir nú vestur með ströndinni á átt að Reykjanesi.
Hann er nú útaf Staðarhverfi .
Veður er gott og sjólaust.
Hann fer hugsanlega fyrir Reykjanestána rúmlega kl. 19: 15. og ætli hann að lenda í Stóru- Sandvík yrði hann þar rúmlega kl 20.

Kl. 19:46
Nú er Guðni Páll staddur nokkuð þvert útaf Litlu Sandvík og stefna sem hann hefur núna bendir til að Hafnir séu lendingarstaðurinn á þessum langa róðrarlegg. Nú er lens hjá honum - bæði vegna vindsins og straumfallins. Verði Hafnir fyrir valinu hjá honum ætti hann að verða þar rétt um kl 22:00. Það er mikil þrautsegja hjá Guðna Páli að róa alla þessa löngu leið í dag- það stefnir í rúma 70 km. ;)

KL 20:17
Hraðinn hjá Guðna Páli í þessum lens aðstæðum er milli 8,5 og 9 km/klst :cheer:
Ef fer fram sem horfir verður Guðni Páll í Höfnum um kl 21:30

Kl 21:30 17. maí
Guðni Páll lenti í Höfnum á Reykjanesi rétt fyrir kl 21:30 ,eftir 70 km róður frá Vogsósum í Selvogi.
Hann lagði upp frá Selvogi kl. 09:10 í morgun og tók 2.5 klst hvíldarhlé í Grindavík, auk þess sem hann beið þar fallaskipta í Reykjanesröstinni.
En að róa í rúmlega 11 klst er ærið verk- sannkölluð þolraun- sem Guðni Páll stóðst með glæsibrag. Til hamingju með árangurinn - Guðni Páll. :)

Og nú er örstutt í Faxaflóann ;)

__________________________________________________
Frá Grindavík- Litlabót

Mynd: Sævar Helgason

Róðurinn í dag (leggur nr. 9) þann 16. maí var mjög góður alls um 35 km og veður gott einkum seinnihlutann eftir að komið var framhjá Þorlákshöfn.
Nú eru það helst blöðrur á höndum sem þjá ræðarann – enda álag á lofana mikið við sífelldan núning við árina.

Reykjanes

Mynd: Sævar Helgason

Að fara fyrir Reykjanesið krefst nokkurrar þekkingar á sjávarföllum –þar sem röst myndast við sjávarstrauma.
Það þarf að taka rétta strauminn .
Gísli H. Friðgeirsson er góður rágjafi varðandi Röstina.
Myndin er tekin í norðanstrengnum í dag 16. Maí.
Það er sjólaust, en nokkur vindbára sem gengur niður í nótt..

Stóra- Sandvík

Mynd: Sævar Helgason

Hér gæti Guðni Páll látið staðar numið á morgun í Stóru Sandvík - kominn fyrir Reykjanesið.

Og við fylgjumst með róðrinum á morgun – bæði á Spot tækinu og á þessari síðu sem verður uppfærð reglubundð eftir framgangi róðurs Guðna Páls. ;)

Kort af áætlaðri róðarleið
plus.google.com/photos/11326675796839424...13266757968394245330

Á meðan við bíðum að Guðni Páll ljúki róðrinum eru hér nokkrar myndir til dægrastyttingar frá róðrarleið hans :P
plus.google.com/photos/11326675796839424...13266757968394245330

Kort af róinni leið um Ísland
plus.google.com/photos/11326675796839424...13266757968394245330
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

15 maí 2013 22:50 - 16 maí 2013 17:57 #92 by Sævar H.
9. róðrarleggur Stokkseyri- Selvogur

Selvogur

Ljósmynd, Mats Wibe, www.Mats

Þann 16.maí 2013 áætlar Guðni Páll að leggja upp frá Stokkseyri þar sem hann lenti í gær og róa í Selvoginn – um 35 km leið og leggja af stað um hádegisbil.

Fréttir dagsins :

Kl 15:37 16. maí
Guðni Páll lagði upp frá bryggjunni á Stokkseyri um kl 12:45 . Hann var hress og kátur þegar ég talaði við hann þá. :)
Veður er N 8-10 m/sek og hiti um 13 °C . Vindur er breytilegur vegna áhrifa fjalllendis hér og þar- sumstaðar hægara og annarstaðar meiri strengur - N 8 er svona meðal vindur.
Hann hefur nú lagt að baki um 20 km af þeim 35 sem hann áætlar að róa á þessum legg. Hann þveraði flóann milli Eyrarbakka og Þorlákshafnar með djúpum boga til hafs- hann var því nokkuð langt úti- það heitir Eyrarbakkabugur.
En nú er hann um 700 m frá landi og sennilega í skjóli af landinu.
Það heitir Keflavík sem hann er að róa meðfram (víða Keflavík á landinu) ;)

Kl.17:37 16.maí

Nú er Guðni Páll lentur í fjörunni neðan við Strandakirkju í Selvogi - ekki amalegur staður að taka land. Og tími hans við róðurinn er 7 km meðalhraði - sem er flott. Ekkert stopp á leiðinni . Hann hefur því róið þessa 35 km á 5 klst. :)

Yfirlit um róðurinn frá sjónarhorni Guðna Páls kemur þegar áætlun um 10. róðrarlegg verður birt hér... bara bíða :P

_______________________________________________________________
Róðurinn í gær frá Landeyjarhöfn og til Stokkseyrar var mjög erfiður.
Hafalda framanundir á hlið og verulegur mótvindur – einkum seinni hluta leiðar.
Mikil átök voru að komast fyrir Þjórsárós .
Þó sú leið sé stutt á korti séð – þá eru miklir straumar langt út og með landinu.
Í róðraráætlunni í gær var gert ráð fyrir að um 30 mín tæki að róa þetta- það nálgaðist 1 klst.
Mótvindur og hafalda lögðu í púkkið.

Guðni Páll tók eitt stopp á leiðinni ,skammt frá Hólsá.
Það var of knöpp hvíld á þessari erfiðu leið.
Mikið fuglalíf heillaði kappann þarna og selirnir fylgdu honum bæði forvitnir og spakir

Mikill var fögnuðurinn þegar austari bakka Þjórsár sleppti og „Sandurinn mikli“ allt frá Höfn í Hornafirði var kvaddur . Vestari bakki Þjórsár er myndaður af Þjórsárhrauni-8700 ára gömlu.
Og framundan eru hraunstrendur allt að Reykjavík-einkum Reykjanesskaginn..

Guðni Páll hefur ekki jafnað sig að fullu í bakinu eftir brotsjóinn mikla fyrir Meðallandinu.
Þannig að hann þarf að huga að sér.

En klárlega hefur Guðni Páll sett eitt met á róðri um þessa 400 km sandstrandlengju og þá erfiðustu við strendur Íslands- hann hefur bara sofið eina nótt í tjaldi .
Nóttinni sem hann eyddi á Skeiðarársandi milli jökulfljótanna tveggja Gígjukvíslar og Núpsvatna.

Ps. Tjaldbúskapurinn reyndist vera 2 nætur hjá Guðna Páli - en Gísli H.F. eyddi 3 nóttum í tjaldi á sinni ferð um sama svæði. Hafa skal það sem sannara reynist. ;)

Róðraleiðin á þessum 9. róðrarlegg mun liggja um skerjagarðinn við Eyrarbakka og Stokkseyri ,fyrir Ölfusárósa og að Þorlákshöfn og með ströndinni allt í Selvog og enda undan Strandakirkju- þeirri frægu áheitakirkju um aldir.

Meira um róðurinn á morgun

Strandakirkja í Selvogi

Mynd af netinu: Safnabókin.is

Helgisögnin

„Einhverju sinni var ungur bóndi að koma frá Noregi á skipi sínu þar sem hann hafði sótt sér við til húsagerðar.
Þegar hann er að koma að landi lendir hann í sjávarháska í dimmviðri og fær ekkert við ráðið.
Bóndinn fyllist örvæntingu og heitir því að hann muni gefa allan húsagerðarviðinn til kirkjubyggingar á þeim stað er hann næði landi.
Þegar hann hafði unnið þetta heit birtist honum ljósengill framundan stefni skipsins og verður þessi sýn honum stefnumið sem hann stýrir eftir.
Engillinn leiðir svo skipið gegnum brimið og bárust skipverjar þannig inn í vík eina nálægt Strönd sem nefnist Engilsvík eftir þetta.
Þar skammt fyrir ofan malarkamb var reist hin fyrsta Strandarkirkja.
Þessi helgisögn er talin vera frá 12. öld og hefur verið til í manna minnum allt frá þeim tíma. Hún hefur orðið til þess að Strandarkirkja hefur alla tíð verið áheitakirkja „

Tilvitnun: Guðrún R. Stefánsdóttir, um Strandakirkju

Kort af áætlaðri róðrarleið
plus.google.com/photos/11326675796839424...13266757968394245330

Kort af stöðu róðurs um Ísland

plus.google.com/photos/11326675796839424...13266757968394245330
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

14 maí 2013 17:47 - 19 maí 2013 08:42 #93 by Sævar H.
8. róðrarleggur Guðna Páls : Landeyjarhöfn- Stokkseyri

Eyrarbakki , horft til austurs allt til Eyjafjalla og Vestmannaeyja t.h.

Ljósmynd, Mats Wibe. www.Mats, með leyfi höfundar

___________________
Kl. 09:40 15.maí
Nú hefur Guðni Páll ýtt á flot frá sandinum við Landeyjarhöfn og sett stefnuna vestur með landinu í átt að Eyrarbakka.
Veður er gott hjá honum , S 3-5 m/sek 0,5- 1 m ölduhæð.
Öldustefna er framanundir hlið og verður þannig í dag - en ölduhæðin gæti farið í 1,5 m.
Nú er Guðni Páll með nýtt og gott GPS tæki frá Garminbúðinni - sem voru honum innan handar með það .
Og í tækinu er nýjasta útgáfa af Íslandskorti. ;)

Kl. 12:40 15.maí
Núna eftir um 3 klst róður hefur Guðni Páll náð um 6,3 km /klst róðrarhraða- Hann hefur nú lagt að baki um 19 km
Aldan er svona heldur að auka honum erfiðið, á móti, Fari fram sem horfir gæti róðurinn til Eyrarbakka tekið um 9 klst klst. :unsure:

Kl. 15:14 15.maí
Nú er Guðni Páll búinn að róa > 35 km frá Landeyjarhöfn. Fyrir stuttu tók hann land skammt vestan Hólsár - til hvíldar og hressingar . En hann er kominn aftur á flot . Nú eru aðeins eftir um 7 km að Þjórsárós eða um 1 klst róður. ;)

Kl 18:45 15. maí
Ég heyrði í Guðna Páli um 17:30 þar ég sem var staddur á Krísuvíkurbergi við fuglaskoðun og myndatökur. Hann hafði ákveðið að stefna á lendingu á Stokkseyri.
Hann er búinn að hafa erfiða mótöldu síðustu klst. , vaxandi vindur og orðinn lúinn á því streði- en samt hress í tali.
Og núna kl. 18:45 er hann kominn framhjá Knarrarósvita og á eftir um 4 km róður til Stokkseyrar eða rúma 1/2 klst. Hann er svona um 700 m frá landi vegna skerjaklasanna sem þarna eru. Veður er samt ekki slæmt né sjór .

Kl. 19:24 15. maí

Guðni Páll lenti rétt í þessu í fjörunni innan við bryggjuna á Stokkseyri eftir 10 klst róður frá Landeyjarhöfn. Vegna erfiðs og vaxandi mótvinds og öldu hvarf hann frá því að lenda á Eyrarbakka sem er mun vestar. Ég mun spjalla við Guðna Pál í kvöld og fá yfirlit um róðurinn. Það kemur með næsta pistli - væntanlega um næsta róðrarleggRóðrarleiðin
Þetta er um margt merkilegt svæði sem Guðni Páll rær nú með fram frá Landeyjarhöfn að Eyrarbakka, þegar hann leggur upp um kl. 09:00 þann 15. maí
Eftir að sandinum sleppir, sem er samfelldur frá Höfn í Hornafirði, allt að Þjórsárósum-tekur við merkilegt svæði.

Þjórsáin sjálf, þetta lengsta vatnsfall á Íslandi , er mjög merkileg.
Vatnið sem stöðugt streymir til sjávar hefur gegnt því hlutverki að veita afl til framleiðslu á 700 MW af raforku inná raforkukerfi landsins- viðvarandi alla daga ársins. Það munar um minna.

Yfir útstreymi þessa vatns við Þjórsárósa –rær Guðni Páll á svona 30 mín.
Á austurbökkum árinnar er sandur- en á vestari bökkum er hluti af mesta hraunrennsli sem runnið hefur á Íslandi ,svo þekkt sé ,svokallað Þjórsárhraun.
Hraunið kom upp í eldstöðvum á Veiðivatnasvæðinu fyrir 8700 árum og það þekur víðáttu mikil svæði milli Þjórsár og Hvítár –Ölfusár.og myndar ströndina þeirra á milli.
Auk þess sem Þjórsáin gegnir mikilvægu hlutverki fyrir uppeldisskilyrði fiskstofna við suðurströndina.
Þess vegna er svona gott fiskirí þarna . :)

Þjórsárhraunið tekur því við af söndunum miklu sem spanna allt frá Höfn í Hornafirði að Þjórsá austanverðri.

Þjórsárhrunið gerði því mögulegt að mynda fyrstu höfnina á suðurströndinni,
Mikill hraunskerjafláki framan við Eyrarbakka myndaði ákjósanlegt niðurbrot og skjól af haföldunni..

Þessvegna byggðist Eyrarbakki upp sem verslunarstaður í árdaga byggðar á Íslandi
Á meðan danska einokunin réð verslun varð Eyrarbakki mesta verslunarsvæði Íslands, mun stærra en Reykjavík.
Og það munaði ekki miklu að Eyrarbakki yrði höfuðborgin.

Þarna ætlar Guðni Páll að enda sinn 8. róðralegg á ferð sinni umhverfis Ísland .

Og nú þarf hann að hafa góðan hjálm á höfði –velti hann í briminu, sem oft er í sundum þessara skerjafláka, og gleyma þeirri mýkt sem sandarnir miklu gáfu við brimlendingar.

Svo tekur við hin harða strönd hraunanna á Reykjanesskaga með Krísuvíkurbjarg þverhnípt í sjó- 20 km langt.

Kort af 8. róðrarlegg
plus.google.com/photos/11326675796839424.../5877889056936133938

Kort af róinni leið um Ísland
plus.google.com/photos/11326675796839424...38073399053505?hl=is
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

14 maí 2013 16:31 #94 by halldob
Takk Sævar
kv.
Halldór Björnsson

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

14 maí 2013 16:15 - 14 maí 2013 16:17 #95 by Sævar H.
Til upplýsingar:
Mál hafa upplýstst á þann veg að fjármálaleg tengsl við viðkomandi hjálparstofnun, Samhjálp eru ekki önnur en gerist með almenn áheit vegna ýmissa atburða sem hjálparstöfnanir ástunda- þ,e til góðgerðarmála. Ferð Guðna Páls gagnvart áheitum til Samhjálpar er því venjulegt mál og almennt. Þessi vissa breytir því að aðkoma okkar Kayakklúbbsins fellur í sama farveg og áður. Við sem áhugamannfélag getum því haldið úti umfjöllun um þessa merkilegu þolraun félaga okkar hans Guðna Páls- áfram eins og verið hefur . En þennan skilning og vissu varð að fá fram. Eins og fram hefur komið, er og verður ýmisslegt efni sett inn sem er heimilt vegna áhugamannafélaga. Alla tilvitnun fjölmiðla eða birting efnis er því heimil , sé þess getið hvaðan það er komið- í okkar tilviki Kayakklúbburinn.is
Vissulega gekk brotsjór yfir í morgun - en við komum ólöskuð á sléttan sjó á ný.

Nýtt innlegg á sömu ljúfu nótunum og áður er væntanlegt í kvöld eða fyrramálið.
En það verður róið snemma i fyrramálið-það gefur á sjó.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

14 maí 2013 16:12 #96 by halldob
Sæll Sævar og allir aðrir óþreytandi kayakáhugamenn.
Ég veit ekki hvað hefur gerst.
Ég vil hins vegar biðja þig Sævar að hætta ekki að skrifa pistlana þína. Ég er viss um að það eru fleiri en ég sem hafa fylgst af mikilli athygli með pistlum þínum undanfarin ár t.d. í tengslum við hringróður Gísla.
Þessir pistlar hafa verið daglegar upplýsingar sem við sem áhuga höfum höfum fylgst með.
Á hverjum degi og oft á dag. Samfléttun upplýsingu um ræðarann og aðstæður, veðurfarslegar og stundum sagnfræðilegar. Pistlarnir sem fylgdu Gísla og nú síðustu daga Guðna Páli hafa verið órjúfanlegur hluti af daglegu lífi mínu og verða sífellt betri.
Þannig að um leið og ég þakka þér fyrir það sem þú hefur skrifað áður vil ég bókstaflega grátbiðja þig að hætta ekki að fylgja Guðna Páli á þessari hringferð hans.
kv.
Halldór Björnsson

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

14 maí 2013 13:22 - 14 maí 2013 13:31 #97 by siggi98
Nú er ég ekki alveg með á nótunum.
Þetta eru búnir að vera frábærir pislar hér á síðunni. Vil síður að þeir hætti.
Þeir sem sækja þessa heimasíðu eru áhugafólk um kayaksportið og því er það í eðli málsinn að stuttir fréttatilkynningar á öðrum síðum sefa ekki forvitni þessa hóps. En það dugar fyllilega fyrir ekki kayakfólk sem hefur áhuga á þessari ferð Guðna og hefur gaman að fylgjast með og er það því að hinu góða.

Þetta er mikið þrekviki sem Guðni er að leggja á sig frá því verður ekki horft og þarf hann allan okkar stuðning í það. Það að hann í leiðinni velji að leggja góði málefni lið og hjálpi þeim í leiðinni að setja fókus á þeirra málefni er af hinu góða í mínum huga.

Ég á erfitt með að sjá að þetta fari ekki saman. Sumir fylgjast með honum út af áhuga á kayaksportinu, aðrir af því þetta er mikil ævintýriaferð og enn aðrir af almennri forvitni. Fólk er síðan í fráls vald sett hvort að það leggur góðumálefni lið, það er annað mál.

Þeir sem sækja þessa síðu gera það af áhuga á sportinu. Það að sumir velji leggja góðu málefni lið sé ég ekki komi málinu við á nokkurn hátt.

Hvet greinar höfund til áframhaldandi skrifa

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

14 maí 2013 10:48 - 14 maí 2013 13:13 #98 by eymi
Jahérna..... nú held ég að einhver sé að skjóta sig í fótinn. 90% þeirra sem fylgjast með þessu hér á landi erum við kayakmenn og ef við megum ekki blogga um þetta þá er það ekki til framdráttar fyrir þessa söfnun. Sjálfur hef ég deilt einvherju um þessa ferð á Facebook og lagt inn áheit í Samhjálp og það hefur fyrst og fremst verið vegna hluttekningar á frásögnum Sævars. Lítið sem ekkert er að finna um þetta á heimasíðu Samhjálp og AroundIceland 2013. Er hreint ekki sáttur.

Tek þetta til baka... það má alls ekki gera leiðindi úr þessum málum, sérstaklega Guðna Páls vegna.
Það væri að sjálfsögðu skynsamlegast að menn taki höndum saman og bloggi um afrek Guðna á einum stað, Facebook síðunni Around Iceland 2013, þar sem finna má linka í áheitin o.s.frv...

Sævar, þú átt bara að fá aðgang þar og setja þar inn þín frábæru skrif! B)

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

14 maí 2013 10:35 - 14 maí 2013 10:39 #99 by Sævar H.
Nú verða þáttaskil í þessum færslum mínum tengt hringróðri um Ísland 2013.
Kayakklúbburinn er áhugamannafélag um kayakróðra. Hann rekur þessa heimasíðu vegna kayaksportsins
Allt sem hér er sett inn er í þeim anda að hvaðeina sem viðkemur þessu áhugamáli okkar Kayakklúbbfólksins hefur hér vettvang
Og þegar félagar okkar t.d leggjast í jafn háleit markmið sem að róa umhverfis Ísland - vekur það auðvitað samhug okkar og áhuga fyrir að fylgjast með ferðalaginu
Við höfum gert það fyrr -þegar Gísli H.Friðgeirsson réri umhverfis Ísland 2009 einn síns liðs. Þá naut hann eingöngu aðstoðar okkar félaga sinna í Kayakklúbbnum- auk síns persónulega umhverfis.
Nú er annar félagi okkar að stefna að þessu markmiði - að róa umhverfis Ísland . En við það verkefni er annar háttur á en fyrr. Róðurinn er tengdur fjársöfnun um Samhjálp.
Það er því eðlisbreyting á . Þessi háttur samrýmist illa því sem hér hefur verið starfað eftir. Saklaus áhugamannasíða um róður umhverfis Ísland verður að samkeppnisþætti fjármála.
Ég féllst á að færa upp á þessari áhugamannsíðu Kayakklúbbsins róður Guðna Páls á leið hans umhverfis Ísland það er á allan hátt ólaunuð og öll gögn sem notuð eru - fengin vegna þess að um áhugamannahóp er að ræða.
Ljóst er að það er óróleiki vegna þessara síðupistla. Ég hef engan áhuga fyrir þannig mannlífi.
Ég mun því ekki færa fleiri pistla á síðuna " Hringróður um Ísland 2013" Þakka öllum sem ánægju og fróðleik hafa sótt í þessi skrif.

En eins og máltækið segir "Hætta slkal hverjum leik þá hæst hann stendur" :) Takk.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

13 maí 2013 09:47 - 13 maí 2013 13:01 #100 by Sævar H.
Höfn í Hornafirði- Landeyjarhöfn

Guðni Páll Victorsson, kayakræðari

Mynd Guðni Páll

Nú er smá róðrarhlé hjá Guðna Páli , kyakræðara , á hringferð hans um Ísland- og því lítið að gerast á þessari fréttasíðu Kayakklúbbsins –tengt ferð hans.
Það er því upplagt að fara nokkuð yfir farna leið og þá lang erfiðustu – gagnvart lands og sjóháttum- á allri hringferðinni.
Þar tekst á erfitt sjólag ,hafnleysur , eyðisandar sem spanna um 300 km með allri strandlínunni og að síðustu jökulárnar miklu sem renna frá Vatnajökli og Mýrdals og Eyjafjallajökli-mikil vatnsföll og áhrif þeirra í bland við mikla hafstrauma við suðurströndina.
Allt þetta til samans gerir þessa leið að lang erfiðasta róðrarsvæði við Íslandsstrendur.
Á þessu svæði einu hafa flestir áskorendur þess að róa umhverfis Ísland- gefist upp.
Náttúruöflin hafa borið þá ofurliði.
Og nú hefur Guðni Páll haft sigur í samskiptum við öll þessi náttúruöfl.
En það gerðist ekki átakalaust.
Fyrr í þessum pistlum, um ferð Guðna Páls ,hefur ýmsum atburðum þegar verið lýst og verða ekki endurteknir hér.
En góðar myndi segja oft meira en hundrað orð .
Nokkrar þeirra sem orðið hafa til á þessum > 300 km langa róðrarlegg fylgja með hér :

Róið upp Jökulsá á Breiðamerkursandi

Mynd Einar Björn

Eftir að hafa komist um 2-3 metra háa brimskaflana fyrir utan Jökulsá á Breiðamerkursandi tók við að róa upp ána – allt uppí Jökulsárlón – um kílometirs leið í ólgandi straumfallinu innanum ísjakahrönglið.

Guðni Páll lentur í Jökulsárlóni

Mynd Guðni Páll

Og að verða að taka land á Skeiðarársandi vegna vesnandi veðurs og smákrankleika reyndist þung þraut.
Margra tugakilómetra sandflæmi – sundurskorið af mestu jökulvatnsföllum landsins –á allavegu.
25 km frá vegakerfinu yfir Skeiðarársand og yfir sandbleytu, kviksyndi og jökulsár og ála þeirra að fara-ef á þyrfti að halda.
Í raun ókleif hindrun. .

Látið fyrirberast á Skeiðarársandi milli stóránna Gígjukvíslar og Núpsvatna

Mynd. Guðni Páll

Eftir að hafa dregið um 100 kg þungan bátinn uppfyrir sjávarkambinn ,var reist tjald .
Það er ekki einfallt á sandi – engar festingar fyrir tjaldhælana.
Þá var gripið til þess að draga að rekaviðardrumba sem þarna voru á dreif og festa tjaldstögin við þá .
Og í aðsigi var mikill sandstormur .
Þá var báturinn settur upp á hlið vindmegin við tjaldið til varnar.
Og það hvessti duglega ,15-20 m/sek þegar mest var með tilheyrandi sandfoki sem um allt smýgur.
Bót var að nokkuð rigndi sem hafði nokkurn hemil á sandfokinu- en nóg samt.
Við þessar aðstæður dvaldi Guðni Páll í um sólarhring, en þá komst hann aftur á flot á leið sinni að Alviðruhamarsvita- þar sem brotsjórinn mikli reið yfir.
En sú saga er skráð hér að framan.

Já, suðurströndin er engu lands eða sjósvæði Íslands lík og að sigra þær aðstæður er hreint þrekvirki.

Og núna meðan beðið er færis til áframhaldandi róðurs- er bátur og búnaður yfirfarinn eftir átök undangenginna daga við suðurströndina.
Og kannski ekki síst að Guðni Páll fái örfáa daga til endurnæringar-eftir þrekvirkið :)

Fáeinar myndir sem Guðni Páll tók.
plus.google.com/photos/11326675796839424.../5877389167014768274
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

12 maí 2013 13:00 - 12 maí 2013 17:41 #101 by Sævar H.
7. róðrarleggur á hringróðrinum um Ísland

Landeyjarhöfn á Landeyjarsandi

Mynd: sigling.is

Síðbúnar fréttir af róðrinum vegna símavanda.

Kl 10:20 í morgun þann 12.maí lögðu þeir upp frá Vestmannaeyjahöfn, tveir róðrarfélagar á þessum 7. legg Guðna Páls á hringróðri um Ísland.
Stefnan var sett upp á meginlandið- skammt vestan við Landeyjarhöfn.
Og eftir 2 ja klst róður yfir sundið milli lands og Eyja renndu þeir upp í Landeyjarsand.
Veður var einstaklega gott og stillt í sjó þar sem þeir fóru um-þó meiri hafalda væri vestar.
Þeir nutu skjóls af Eyjunum.

Nú er framhaldið háð duttlungum sjólagsins ,en næstu tvo daga verður um 3 ja metra alda af suðri og því ófært til róðra.
En síðan gengur sá órói hafsins niður.
Þeir félagar Guðni Páll og Gunnar Ingi eru á leið til Reyjavíkur þessa stundina
Fyrir Guðna Pál er tveggja daga hvíld - hið besta mál.
Bakið er ennþá aumt eftir brotsjóinn og blöðrurnar í lófunum að gróa.

Kort af róinni leið til þessa:

plus.google.com/photos/11326675796839424.../5872738163360116850
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

10 maí 2013 13:21 #102 by eymi
Það virðast eitthvað slitróttar sendingar frá tækinu í dag... ?

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

10 maí 2013 12:00 - 10 maí 2013 12:05 #103 by palli
Smá fróðleikur um ferðalag spot tækisins í fyrradag eftir að það sópaðist af dekkinu hjá Guðna:

Síðasta merki fyrir brot kemur kl 14:01. Næsta merki kemur kl. 16:18 og þá hefur tækið rekið rúmlega 10 km leið í suðvestur og er komið upp í fjöru þar sem það beið. Sendingar eru slitróttar þar sem tækið sendir bara þegar það liggur á bakinu og aldan hefur velt því nokkrum sinnum greinilega. Í gærmorgun sendi það svo nokkra punkta á sama stað og hætti svo að senda. Þá hefur það endað með bakið upp og var þannig enn þegar við fundum það um 7 leytið.

Það hefur semsé verið næstum róðrarhraði á tækinu frá því að það slitnaði frá Guðna þar til það kom upp í fjöru 10 km síðar, 4.5 km/klst

Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

10 maí 2013 10:59 - 10 maí 2013 21:40 #104 by Sævar H.
6. róðrarleggur Vík í Mýrdal - Vestmannaeyjar

Frá Vestmannaeyjum


Ljósmynd Mats Wibe, www.Mats , með leyfi höfundar

Nú kl um 10:30 er Guðni Páll að leggja upp frá Vík í Mýrdal í sinn 6. róðrarlegg á hringróðri sínum um Ísland.
Leiðin mun liggja fyrir Reynisdranga og Dyrhólaey og allt að Holtsós undir Eyjafjöllum- þaðan verður stefnan sett á Vestmannaeyjar og tekið land þar til dvalar .
Þessi róðrarleið er um 72 km .

Kl. 10:30
Ég sendi Guðna SMS í morgun og bað hann að starta tækinu þarna í Vík. Siðan sló ég á þráðinn til hans núna rétt í þessu. Hann er búinn að kveikja á tækinu og það blikkar eðlilega hjá honum- það er stutt síðan hann kveikti á því - það getur tekið smá tíma að það berist um gervihnöttinn og stjórnstöðina og á netið.
En Guðni Páll er að ýta úr vör núna frá Vík í Mýrdal. Og full virkni komin á Spot tækið góða - ævintýratæki :)

Og við Holtsós bætist honum róðrarfélagi yfir til Vestmannaeyja. Gunnar Ingi , kayakræðari ætlar að róa með Guðna Pái þá leið.

Veður er nokkuð gott til ferðar. Ein brimalda við fjöru í Vík og síðan góður sjór.

Kl. 12:54
Nú hefur Guðni Páll róið í 2 klst frá því hann yfirgaf Vík í Mýrdal og búinn að fara 16.6 km eða á 8,3 km /klst.
Það er hraðamet hjá Guðna Páli í allri ferðinni.
Það er bullandi lens - austan átt og öldustefna hin sama .
Hann var að fara framhjá ánni Klifandi sem er jökulá. Hann tók góðan sveig út fyrir útfallið .
Svæðið sem hann er að fara framhjá heitir því skemmtilega nafni " Píningur " og er skammt austan við Pétursey.
Næsta jökulfljót sem hann fer fyrir er Jökulsá á Sólheimasandi. ;)

Kl. 13:30
Hann hefur nú farið framhjá Jökulsá á Sólheimasandi. Spot tækið virðist virka vel. Verði stefnubreyting þá gefur tækið fljótt nýtt merki og síðan líður venjulegur tími milli sendinga. En lendingartími Guðna Páls við Holtsós er áætlaður um kl 16:30 haldi hann sama meðalhraða sem er líklegt. Hraðinn er yfir 9 km/klst eins og er . Gott að Gunnar Ingi viti það.

15:24
Guðni á nú eftirtæpa klst í Holtsós. Hann er nýfarinn framhjá Ysta-Bæli. Þetta er mjög góður hraði á honum-hörku lens og báturinn eðal lensari- aðsögn.. :P
Þar sem Guðni er með vara GPS tækið sitt eftir að hitt fór fyrir borð-þá er hann illa græjaður með GPS. Í þessu tæki er ekkert kort. Ég sendi honum hnit á Holtsós- Elliðaey, Bjarnarey og innsiglinguna í Vestmannaeyjahöfn- á GSM. Hann getur þá slegið þeim púnktum inn fyrir brttför frá Holtsósi. En sennilega verður Gunnar Ingi með gott GPS. Brotsjórinn er ennþá að valda vanda. :( Nú fer í hönd rigningardimmviðri um sinn og því skyggni takmarkað. En hann fer grunnt með landinu núna. ;)

17:10
Kl. 15:30 lenti Guðni Páll skammt austan við Holtsós - við vegaslóðann undan Ysta-Bæli- þar sem Gísli H.F lenti forðum. Og kl um 16:00 er hann kominn aftur á flot og þá vonandi með Gunnar Inga með sér. Stefnan er sunnan megin við Elliðaey. Þeir höfðu róið um 10 km. og eiga eftir um 14 km í Elliðaey sennilega um 1.5 klst róður. Veður er 10-14 m/sek frá austri þannig að það er aftan undir hlið og því lens, einnig er aldan með sömu stefnu- en það lægir heldur- nokkur rigning en hlýtt. Gangur hjá Guðna Páli er sennilega sá besti í ferðinni.

18:20
Það hefur heldur hægt á þeim í aftantil hliðaröldunni sem er 1.75 m samkvæmt Landeyjarbauju. En meðalhraðinn er um 6,3 km/klst. Þeir eiga eftir um 8 km í Elliðaey og verða þar rúmlega 19:30.

19:40
Nú er Guðni Páll kominn að suðuenda Elliðaeyjar og ætti að verða kominn í Vestmannaeyjahöfn um kl 20:30. Þeir félagar Guðni Páll og Gunnar Ingi hafa síðustu klst verið í vindbelgingi og talsverðum sjó á hlið að mestu. En nú er veður orðið hagstætt 7-10 m/sek SA á Stórhöfða. Þannig að nú myndast skjól af eyjunum og lokaróðurinn því þeim ljúfari á lokasprettinum til Vestmannaeyja. :)

20:30

Guðni Páll í Vestmanneyjahöfn eftir 70 km róður frá Vík í Mýrdal og hefur nú lagt að baki um 310 km leið af hringróðri um Ísland.

Glæsilega gert Guðni Páll- til lukku :) :P

Sægarpurinn kemur til Vestmannaeyja

Mynd : Eva Alfreðsdóttir- fengin að láni af Facebook


Kort af róðrarleiðinni
plus.google.com/photos/11326675796839424.../5876092015396847186

Kort sem sýnir stöðu hringróðurs 10.05.2013

plus.google.com/photos/11326675796839424.../5872738163360116850
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

10 maí 2013 10:42 #105 by palli
Skv gamla spottinu þá er Guðni kominn ofaní fjöru á Vík og er væntanlega að stefna á Eyjar. Gangi honum allt í haginn.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum