Breiðafjörður 2020
Breiðafjarðarferðin 3-5 júli
Það voru 18 ræðarar sem tóku þátt að þessu sinni.
Þegar við mættum i höfnina i Klauf var fagurt veður og rólegur vindur.
Við rérum í einum áfanga út i Skáleyjar, það varð tæplega 3 tímar róður, þar sem höfðum mælt okkur mót við eigendur sem tóku okkur vel. Tjaldstæðið var sléttur bali þar sem við tókum land.
Laugardagurinn var heldur vindasamari en við hefðum óskað og því var ákveðið að róa i Hvallátur sem var léttur klukkutíma róður undan vindi i byrjun og svo með öldu og vind i bakið á ská sem reyndist öllum viðráðanlegt.
Í Hvallátrum var okkur vel tekið og fengum við að skoða skemmuna þar sem trébáturinn Egill er næstum uppgerður. VIð höfðum hugsað okkur að ef laugardagurinn yrði lygn og góður að nota tækifærið og róa yfir i Sviðnur en það var ekki reyndin og var því róið til baka i Skáleyjar eftir gott hádegis stopp.
Hluti hópsins fór i land en hinn hlutinn lengdi aðeins róðurinn. þegar allir voru komnir i land og höfðu notið veðurblíðunnar, farið i sjósund eða hvílt sig fengum við leiðsögn og sögur ábúenda um eyjuna, skoðuðum safn Jóhannesar síðasta bónda í Skáleyjum og margt fleira sem var bæði fróðlegt og skemmtilegt. Um kvöldið var svo safnast saman við matartilbúning með tilheyrandi spjalli.