Klúbbferð: vatnsfjörður og nágrenni 6.-8. júní

12 júl 2012 13:41 #1 by Páll R
Já, sá galli fylgdi þessari ferð minni. Þó þveraði ég auðvitað Geirþjófsfjörðinn á bakaleiðinni. Með lengri ferð hefði mátt halda út t.d. norðan megin Borgarfjarðar og að Hrafnseyri eða Tjaldanesi, þvera síðan yfir til Bíldudals og halda þaðan aftur yfir í Trostansfjörð.
Hins vegar er sýnin út og inn firðina ekki sú sama, og því ekki eins einhæft og halda skyldi að róa að hluta til sömu leið til baka.
Ég get bætt því við hér að á föstudagskvöldinu skömmu fyrir háflóð réri ég einn góðan rúnt um Hagavaðalinn í súldarveðri. Lagði þá frá lauginni við Krossholt. Aðfararnótt laugardagsins gisti ég í svefnpokaplássi í Birkimel, sem er þar rétt við. Á laugardaginn var enn súld við Barðaströndina og því afréð ég að halda yfir í Arnarfjörðinn í von um betra skyggni, sem gekk eftir.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

11 júl 2012 20:37 #2 by Gíslihf
Já - hringfarinn blundar í mörgum.

Þú hefur væntanlega þurft að róa fram og til baka að bílnum.
Kosturinn við hringróður er að ekki þarf að róa sömu leið til baka !

Kv. GHF.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

11 júl 2012 16:56 #3 by Páll R
Sæll Snorri,
verst að þú skyldir ekki komast með síðustu helgi.
Ekki veit hvenær og hvort verður af ferð eins og lýst er hér að framan. En ef einhvern tíma skyldi koma að því skal ég láta þig vita.

Ég lét annars ekki árar í bát þótt ferðinni væri aflýst. Ég var lausbeislaður og frúin að ljúka síðustu vöktum fyrir sumarfrí síðustu helgi. Ég fór því einn á Barðaströndina með bátinn og allt mitt hafurtask. Afréð að nota áætlun B, þ.e. fara í Arnarfjörðinn. Fékk hið fínasta veður þar og fór frá Trostansfirði og í Geirþjófsfjörð, og þaðan yfir í Dynjandavog. Þetta var drjúgur róður en skemmtilegur og margt að sjá. Ekki laust við að hringfaratilfinning gerði vart við sig, svona einn á ferð og engum háður.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

06 júl 2012 19:25 #4 by StefanSnorri
Ég er nokkuð spenntur fyrir ferð eins og þú lýsir. Vinsamlegast láttu mig vita ef málin þróast í þessa átt.

Kv. Stefán Snorri

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

05 júl 2012 13:55 #5 by Páll R
Því miður verður að aflýsa þessari ferð að sinni.
Í fyrsta lagi eru veðurhorfur frekar óskemmtilegar, bæði nokkur vindur og rigning að auki er líða tekur á helgina.
Í öðru lagi var þátttaka í það allra dræmasta. Fólk var ef til vill ekki tilbúið að leggja á sig langa ökuferð í tvísýnt eða leiðinlegt veður.

Páll R

P.S.
Ég er hins vegar nokkuð viss um að ég á eftir að kíkja á þessar slóðir er fram líða stundir, hvort sem það verður á vegum klúbbsins eða ekki. Það væri nú ekki úr vegi að menn tækju sig saman einhvern tíma og gerðu þarna nokkurra daga ferð, t.d. frá Þorskafirði og vestur á Rauðasand. Ekki væri verra að komast áfram og fyrir Látarbjarg, í víkurnar og inn á Patreksfjörð.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

04 júl 2012 11:22 #6 by Páll R
Já, húrra! Einn er hver einn. Óli, það er gott að vita að þú hefur pláss fyrir farþega, en aukabát?
Enn eru undirtektir við ferðinni frekar dræmar. Nú hafa tveir meldað sig, Óli Egils og Magnús Norðdal. Veðurútlit um helgina er reyndar frekar önugt, spáð allt að 8-10 m/s, SV á laugardag og á svo að snúa sér í NV 8-10 m/s á seinni part sunnudags. Þetta er auðvitað sérlega spælandi eftir tveggja vikna hægviðri. Ef þetta gengur eftir virðist mér heppilegast að stíla upp á Arnarfjörðinn, en við sjáum hvað setur.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

03 júl 2012 16:26 - 05 júl 2012 12:03 #7 by Óli Egils
Verð að hætta við.
Kveðja,
Ólafur Egilsson
893 5647

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

01 júl 2012 16:25 - 02 júl 2012 11:20 #8 by Páll R

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

01 júl 2012 16:14 - 02 júl 2012 11:40 #9 by Páll R
Nú er skammt milli ferða hjá klúbbnum og áhangendum hans. Lárus sagði frá nokkurra daga ferð, reyndar ekki klúbbferð, frá Fljótavík til Hólmavíkur undir forystu Magga Sigurjóns. Maður fær nú bara róðrar- og útilegufiðring við lesturinn. Sveinn Axel skipulagði hina ágætustu dagsferð í Borgarfjörðinn 30. júní.
Næsta ferð á vegum klúbbsins er 6.-8. júlí. Þessa daga er fyrirhuguð ferð í Vatnsfjörð á Barðaströnd og næsta umhverfi. Þetta er rómaður staður fyrir náttúrufegurð og mætti una sér á þessum slóðum marga daga. Vatnsfjörðurinn og næsta umhverfi var friðlýst 1975.
Hugmyndin er að slá upp tjöldum í Flókalundi á föstudagskvöldinu 6. júlí og hittast þar til skrafs og ráðagerða. Í Flókalundi er ágætt tjaldstæði, en ekki mjög stórt. Þar sem þetta er fyrsta ferðahelgin í júlí má búast við nokkurri umferð um landið sérstaklega ef veður er gott. Annar ágætur kostur er að halda til byggðarkjarnans við Hagavaðal og tjalda við skólahúsið. Þriðji kosturinn er að leigja svefnpokapláss í Rauðsdal, sem er rétt utan við Vatnsfjörðinn, vestan megin (3500 kr fyrir manninn í tveggja manna herbergi).

Þeir sem koma ekki allt of seint á föstudeginum geta hæglega notað tímann til skoðunar á svæðinu, gönguferðir eða róður.
Á laugardag er áætlað að róa frá Flókalundi út Vatnsfjörðinn og vestur með landi að Hagavaðli og inn vaðalinn (25 km). Gott tækifæri er til þess að skoða ljósar sandfjörur og sker við landið á þessari leið. Reiðskörð eru hluti berggangs sem gengur frá landi og skoðunarverð. Flóðliggjandinn er nokkuð seint, um kl. 21:50, en kvöldin eru björt á þessum árstíma. Mætti líka stefna á að fara inn u.þ.b. 2 klst fyrir liggjandann, og þá jafnvel fara í land á rifinu og bera bátana smáspöl ef straumur inn er sterkur. Kjörið er að enda daginn í lauginni við Krossholt, en þar er hægt að komast í land á flóðinu.
Á sunnudaginn yrði haldið austur frá Flókalundi að Skálmarnesi. Á þeirri leið eru margar smáeyjar og skerjaklasar og hægt að haga vegalengd nokkuð eftir veðri og vindum (25-35 km). Þaðan er hugmyndin að halda inn Kjálkafjörð eins langt og komist verður og enda þar. Þarna geta menn lokið sinni dvöl á þessum slóðum. Þeir sem vilja dvelja lengur gætu slegið upp tjöldum á einhverjum grasbalanum og haldið áfram náttúruskoðun daginn eftir.
Einfalt er að víxla þessum tveimur dagsferðum ef aðstæður krefja. Þannig má fara í Skálmarnes og Kjálkafjörð fyrri daginn, en róa út Hagavaðalinn á morgunflóði þann seinni.

Þessi ferð gefur í raun nokkuð sýnishorn af Barðaströndinni, en nokkuð skiptir landslag um svip um Vatnsfjörðinn. Annars vegar eru djúpir firðir og skerja – og eyjaklasa austan hans en vestan megin taka við sandar og björg í sjó fram.

Það verður nokkuð stórstreymt þessa daga og verður að gæta sjávarfalla til þess að komast án mikils bátaburðar að og frá landi. Fyrra flóð á Brjánslæk er um kl. 09:35 og 10:15 dagana 7.-8. júlí, en seinna flóð kl. 21:50 og 22:35. Til þess að komast inn eða út Hagavaðalinn þarf að sæta föllum (vaðallinn þurrkast nánast upp á fjörunni) og jafnvel að bíða eftir liggjandanum vegna straums.

Þessi ferðaáætlun gerir ráð fyrir bækistöð í Flókalundi, en Krossholt og Rauðsdalur koma einnig til greina. Einhverjar tilfæringar með bíla þarf auðvitað að gera m.t.t. þess hvar dagsferðin er hafin og hvar endað.
Vegalengd frá Reykjavík til Flókalundar er um 340 km. Hægt er að sperrast þess leið á 4-4.5 klst, en heldur mæli ég með að ætla 6 klst til ferðarinnar og njóta um leið útsýnisins, sérstaklega á leiðinni milli Bjarkarlundar og Flókalundar (120 km). Sá hluti leiðarinnar er seinfarnastur og eitthvað um vegarkafla án slitlags, en virkilega skemmtilegt er að aka um firðina og heiðarnar í góðu tómi ef veður er gott. Annar kostur er að taka Breiðafjarðarferjuna frá Stykkishólmi til Brjánslækjar (frá Stykkihólmi 09:00 og 15:45, frá Brjánslæk 12:15 og 19:00.) Um 6 km eru frá Brjánslæk og inn að Flókalundi.

Ef veður skipast þannig að mönnum hugnist ekki róður við Barðaströndina er stutt að skjótast yfir í Trostansfjörð í Arnarfirði, setja þar á flot og halda yfir í Dynjandisvog (um 28 km róður aðra leiðina). Þar er tjaldstæði og auðvitaðið hinn rómaði foss, Dynjandi. Annar möguleiki er að aka ívið lengra, eða yfir í Patreksfjörð og róa t.d. að Örlygshöfn (um 15 km róður aðra leiðina). Haldið mikið til sömu leið til baka daginn eftir í báðum tilfellum. Þessi svæði eru einnig skemmtileg til skoðunarferða á kajak.
Ég mæli með Örnefnasjá á vef Landmælinga Íslands (lmi.is) til þess að kynna sér staðarheiti o.fl.

Ferðin er flokkuð sem 3 ára ferð, sjá nánar um flokkun ferða á
kayakklubburinn.is/index.php?option=com_...le&id=225&Itemid=113

Eins og í öllum ferðunum okkar, þá fylgjum við öryggisstefnu Kayakklúbbsins:
kayakklubburinn.is/index.php?option=com_...le&id=179&Itemid=102

Vinsamlegast skráið ykkur í ferðina með því að svara þessum þræði, og því fyrr því betra.
Síminn er 6986748  og póstfangið palli.breyniss@gmail.com
Umsjón með ferð :  Páll Reynisson.
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum