Drangey og Kálfshamarsvík - ferðasaga

03 júl 2024 19:22 #1 by SPerla
Skagafjörðurinn tók á móti okkur með húðarrigningu og skítakulda á föstudagskvöldið en bætti um betur því að laugardagurinn rann upp bjartur og fagur með spegilsléttum sjó. Var þá ákveðið að róa til Drangeyjar rétt eins og Grettir Ásmundarson forðum, heilsað var fyrst upp á Kerlinguna og síðan var Drangey skoðuð frá öllum hliðum áður en lagt var á toppinn þar sem var áð. Eins og gefur að skilja var útsýnið stórfenglegt frá toppnum og var góðum tíma eytt í að ganga þar um. Þar næst var þverað yfir á Sævarlandsvík þar sem tekið var stutt kaffi stopp áður en róið var meðfram strandlengjunni til baka að Reykjum. Það voru þreyttir en sælir kayakræðarar sem tóku land í Reykjum eftir 30km dag. Eftir matartilbúning var slakað á í Grettislaug áður en gengið var til náða.Dagur tvö rann upp jafn bjartur og fagur og sá fyrri. Þá var ákveðið að keyra sem leið lá að Kálfshamarsvík sem skartar fögrum stuðlabergsmyndum. Róið var að Fossárfossi þar sem menn léku sér í smá stund áður en kaffistopp var tekið, síðan var róið til baka. Svæðið kom mjög á óvart og vorum við agndofa yfir fegurðinni sem fyrir augu bar. Hreint út sagt frábær helgi með fámennum en góðmennum hópi. Þökkum þeim er tóku þátt. Þessir röru: Sveinn Elmar, Arnar, Elí, Susanne og Perla.   -  MYNDIR HÉR .

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum