Image Viðey - alveg rakið fyrir nýliða og alla aðra

Endilega fjölmennið við Viðeyjarbryggju kl. 19.30 og takið þátt í léttum róðri meðfram eynni. Nú er að auka hróður kayakróðra og veita Steina stuðning. Sjá frétt hér að neðan

Í kvöld, þriðjudagskvöldið 19. júní, verður kajakkynning í stað hefðbundinnar þriðjudagsgöngu í Viðey. Seakayak Iceland mun taka á móti gestum við Viðeyjarbryggju og fara yfir grunnatriðin í meðferð og siglingu kajaka. Að því loknu verður róið meðfram strönd Viðeyjar og virtar fyrir sér ýmsar fallegar bergmyndanir sem þar finnast. Þetta er frábært tækifæri fyrir alla þá sem hafa haft áhuga á að kynnast þessari ört vaxandi sporti og útivistarmöguleika að stíga sín fyrstu skref eða róa sinn fyrsta róður undir leiðsögn fagmanna. Viðey er vinsæll áningarstaður þeirra sem stunda kajakróðra á Sundunum og því við hæfi að halda þar kynningu af þessu tagi.

Þetta er fyrsta þriðjudagsgangan af þremur í Viðey í sumar sem ætlað er að vekja athygli á afþreyingarmöguleikum Viðeyjar. Seinna í sumar verður "fjallahjólaganga" þar sem hjólað verður eyjarenda á milli og í lok sumars verður stafgönguleiðsögn.

Kajakkynningin hefst með siglingu til Viðeyjar frá Sundahöfn kl 19:15 og tekur um tvær klukkustundir. Ferjutollur og kynning kosta 2000 kr fyrir fullorðna og 1000 kr fyrir börn. Allir þátttakendur fá Egils Kristal í boði Ölgerðarinnar.