Gleðilegt nýtt ár og þakkir fyrir það liðna

Kayakklúbburinn sendir félagsmönnum sínum bestu kveðjur og þakkir fyrir góðar stundir á árinu sem er að líða.

Óskum ykkur og fjölskyldum velfarnaðar á nýju ári.

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest á nýju ári á sjó og þökkum góðar stundir megi þær verða fleiri á nýju ári.

 

Hérna er svo örstutt fréttabréf frá Örlygi fyrir hönd stjórnar.

Kaffistopp – frá upphafi til vorra daga. Gróf samantekt.

Enn er vandfundinn klúbbræðari, að ekki sé talað um róðrarstjóra, sem ekki tekur afstöðu til þess er hvort taka skuli “kaffistopp” í félagsróðri, á notalegu sumarkvöldi eða éljaskotnum vetrarmorgni. Ástæður þess eru margbrotnar enda sýnist sitt hverjum um kosti og galla þess að njóta áningar og nestis í miðjum róðri.

Hugtakið “kaffistopp” er gegnsætt og útheimtir hvorki fé né fyrirhöfn að útskýra merkingu þess, en benda má á önnur falleg hugtök sem lýsa þessu háttalagi vel svo sem áning, hvíldarlega, nestishlé og þess háttar. Í félagsróðrum hefur skapast sú hefð að brúka hugtakið “kaffistopp” og munu þau hafa fylgt róðrunum frá fornu fari. Verið óaðskiljanlegur hluti róðranna. Þegar undirritaður hóf að taka þátt í félagsróðrum árið 2004 var undantekningarlaust tekið “kaffistopp” – enda hneigðust vegalengdir til tveggja stafa talna og ekki vanþörf á góðu kaffistoppi – þótt margir væru aukinheldur með orkukubba í vestisvasa. Árið 2007 var til að mynda tekinn félagsróður upp á litla 30 km með tveim kaffistoppum. Er undirrituðum til efs að það hafi verið endurtekið. Jafnan er kaffi, te eða kókó á hitabrúsum, eða svaladrykkur – allt eftir efnum og ástæðum. Þetta hefur yljað mörgum loppnum lúkum og hresst sálartetrið. Í kaffistoppum gefst ágætt tækifæri til að mynda tengsl milli nýrra og eldri félagsmanna, lendingar og sjósetningar við margskonar aðstæður æfðar í leiðinni og þar fram eftir götum. Mest var um kaffistopp á árunum 2006 til 2009, eða í 87% tilvika. Í seinni tíð hefur dregið nokkuð úr tíðni kaffistoppa með því að róðrar eru rösklegri, styttri og e.t.v. hnitmiðaðri. Er tíðnin komin í 61% og verður spennandi að fylgjast með þróun mála á næstu árum. Allt veltur þetta á efnum og aðstæðum, samsetningu hópa, áherslum og væntingum.

Róðrarbækur – rafræn framtíð til góðs

Þeir sem komið hafa nálægt sjómennsku og/eða útgerð hafa fyrr eða seinna heyrt skipsdagbóka getið en í hana færa skipstjórnendur atriði sem máli skipta, aflabrögð, vegalengdir, ákvörðunarstaði og þess háttar. Sú skemmtilega hefði skapaðist í starfi Kayakklúbbsins fyrr á árum að útbúa róðrarbók handa félagsmönnum. Í hana skyldi rita dagsetningar, vegalengdir og ákvörðunarstaði. Til langs tíma voru þessi atriði færð í stílabók, vatnshelda að vísu, sem sinnti sínu hlutverki með sóma til vitnis um virkni félagsmanna. Eru þessar stílabækur orðnar þónokkuð margar, velktar en þó furðu læsilegar enn þann dag í dag og áhugaverð heimild um starfsemi klúbbsins frá frá upphafi til vorra daga. Fyrir aðeins fáum árum var tekið skref inn í framtíðina með því að upplýsingar úr róðrarbókunum voru færðar inn á Alnetið, þótt færa mætti rök fyrir því að það starf væri tímafrekt. Sveinn Axel Sveinsson leiddi þessar tæknibreytingar og hélt utan um róðarbókina á Netinu. Engum er til efs að þetta stökk fram á við, stórefldi sókn félagsmanna til sjóróðra og segja má að róðrabókaritarar hafi haft ærinn starfa af að umbreyta blýantsstrikum í rafrænt form. Telja má kílómetra í þúsundum sem bættust við með þessari breytingu, til stórbættrar lýðheilsu félagsmanna. Á því ári sem nú er að líða var svo enn og aftur stigið stórt skref fram á við með því að róðrarbókin var alfarið gerð rafræn og geta nú félagsmenn skráð róðra sína á spjaldtölvu í aðstöðu klúbssins í Geldinganesi. Flestar færslurnar koma eðli málsins samkvæmt úr vikulegum félagsróðrum, en þess að auki eru magnaðar færslur frá einstökum ræðurum sem róa á öðrum tímum og hrúga inn rónum kílómetrum. Félagsmenn hafa fyrir löngu áttað sig á þessu framlagi þeirra Smára og Rads en að segja að kayakróðrar væru lífstíll hjá þeim, væri vægt til orða tekið. Að þessu sögðu má að sjálfsöðgðu minna á sporin sem bráðum fer að fenna í, en þar er átt við afleiðingar faraldursins á hefðbundið félagsstarf á vegum klúbbsins. Á þeim tímum sem félagsróðrar voru með öllu aflaðgir vegna sóttvarna, voru félagsmenn eigi að síður hvattir til að róa á eigin vegum, með allar sóttvarnir á hreinu –og færa afraksturinn til rafrænnar bókar í aðstöðunni.  Þáttur í þessu fólst lokun á búningaaðstöðu klúbbsins en með ákjósanlegri aðstöðu utan við klúbbaðstöðuna var með góðu móti gerlegt, á góðum degi, að koma sér í galla utandyra og þar með vinna samkvæmt góðum sóttvarnasiðum og njóta róðurs eftir sem áður. Engin ástæða er til að ætla þetta fyrirkomulag megi ekki viðhafa á komandi tímum – allt eftir framvindu faraldursins.

Frábær aðstaða nýtt upphaf!

Nú er liðið á þriðja áratuginn sem Kayakklúbburinn hefur notið aðstöðu í Geldinganesi. Staðreynd er að þetta er einn örfárra staða á strandlengju Reykjavíkur þar sem mannasetningar eru litlar sem engar. Líta verður á þetta sem ómetanleg gæði fyrir klúbb eins og Kayakklúbbinn og ekki má gleyma útivist af öðru tagi sem þrífst á þessum frábæra stað. Enn önnur umræða er lagning Sundabrautar og hvaða áhrif slíkt mannvirki mun hafa á starfsemi klúbbsins.

Gámastæður klúbbsins geta nú hýst á annað hundrað kayaka af ýmsum stærðum og gerðum og er viðhaldi sinnt eftir sem kostur er ár hvert með samhentu átaki félagsmanna auk þess sem huggað er upp á svæðið á árlegum vinnudegi. En aðstöðugámurinn, öðru nafni kaffigámurinn er nýjasta viðbótin í þessari deildinni og leysir af hólmi úr sér genginn kaffigám sem þjónustaði okkur vel í áraraðir. Nýji gámurinn er búinn mun betri salernisaðstöðu en áður, auk þess sem rafrænt innhringikerfi er lipurt í notkun, að ógleymdri útidyrahurðinni sem opnast og lokast eins og fjöður af dúfu og mikil bragarbót af. Húsnæðisnefndin með Össa og Bjarna ásamt Tobba rafvirkja og fleirum á heiður skilinn fyrir tíma og fyrirhöfn af því að koma þessu á koppinn, félagsmönnum til heilla um framtíð alla.

Hér má líka nota tækifærið að hvetja alla sem aðstöðuna brúka, að ganga vel um, og tæma ruslafötur þegar þær kalla á losun. Ganga frá búnaði sem einhver hefur gleymt að setja á réttan stað. Og gæta vel að því að loka á eftir sér. Við erum öll húsverðir í klúbbaðstöðunni okkar.

Öryggishornið með Örlygi

Öryggi og kayakróður eru í mínum huga eins og bræður sem gæta hvor annars í hvívetna. Á liðnum áratug hefur maður ekki komist hjá því að sjá ýmis öryggistæki, misgagnleg eins og gengur og hér verður gerð tilraun til að meta nokkur algeng tæki á hispurslausan en sanngjarnan hátt. Hefjum þessa ræðu með neyðarblysum. Kayakræðurum er uppálagt að vera með neyðarblys, ofast þessi venjulegu, sem loga skært í 1-2 mínútur. (Skotblys eða neyðarsólir hafa ekki rutt sér til rúms af einhverjum sökum). Neyðarblys gera sitt gagn en bjarga hvorki neinu né neinum. Dæmi eru um trillur í vanda, hverra skipstjórnendur kveiktu á hverju neyðarblysi á fætur öðru án þess að þau vektu neina eftirtekt. Þetta hefur líka hent kayakræðara. Þessi reynsla ætti að verða okkur kayakræðurum til áminningar með því að treysta ekki á slík tæki í blindni. Blys sjást ekki eins vel og okkur hættir til að halda. Líta má svo á að þau geri sannarlega sitt gagn, hafi þyrla eða annað björgunartæki náð augum eða eyrum kayakræðara í vanda. Fram að því er hæpið að treysta á þau. Munum að besta öryggisúrræðið er að hugsa hvern róður, stuttan sem langan fyrirfram og skipuleggja sig með þeim hætti að ekki þurfi að grípa í neyðarblys. Höfum varaáætlun, neyðarlendingarstaði, fjarskipti í lagi og umfram allt; förum ekki á sjó nema við teljum okkur ráða við aðstæður, s.s. ölduhæð, vindstyrk og þess háttar. Munum að kayakmennska er líka að ákveða að vera í landi.

 

 

Bestu kveðjur

F.h stjórnar

Guðni Páll Viktorsson