Ég ákvað að hafa þetta formlegt svona allavega í fyrsta riti sem nýr formaður Kayakklúbbsins.

Ný stjórn hefur tekið við keflinu af þeirri gömlu sem stóð sig með sóma. Þökkum við þeim fyrir vel unnin störf.

Það eru mörg ný spennandi verkefni framundan fyrir nýja stjórn og mun ég útlista það frekar þegar stjórn hefur komið saman í fyrsta sinn og raðað niður í stöður og dreift á milli sín verkefnum.

Á síðasta aðalfundi var veitt viðurkenning kayakræðari ársins 2019.
Undanfarin ár hefur þetta verið kayakmaður og kayakkona ársins en nú var breyting sem eldri stjórn tók og ákvað að breyta til með þessari viðurkenningu í staðin.

Í ár hlaut Veiga Grétarsdóttir þessi verðlaun fyrir afrek sitt í sumar.
Veiga bættist þá í fámennan hóp ræðara sem hafa róið umhverfis Ísland á sjókayak.
Ekki var hún bara fyrsta Íslenska konan heldur fór hún einnig á móti straumnum sem ekki hafði verið gert áður og hét verkefnið hennar einmitt Against The Current Iceland.
Veiga er því vel að þessum verðlaunum komin og vil ég fyrir hönd stjórnar óska henni til hamingju með að vera kayakræðari ársins 2019.

 

Einnig langar mig að þakka fyrir útnefninguna á það traust sem því fylgir.
Það er mikill heiður að vera kosin í þetta hlutverk.

Mörg verk sem bíða og afar spennandi tímar framundan.

Bestu kveðjur

Guðni Páll Viktorsson