Image
Fréttaskot frá Rúnari Pálmasyni:

Tæplega tugur ungliða úr Björgunarsveitinni Kili mætti á sérstaka aðventukayakkynningu hjá klúbbnum í gær, laugardaginn 4. desember. Örlygur Steinn Sigurjónsson og Magnús Sigurjónsson (þeir eru ekki bræður þó þeir séu sláandi líkir) stjórnuðu kynningunni af mikilli röggsemi.

Ungliðarnir prófuðu allir að steypa bátunum á rangan kjöl og skjóta sér út úr þeim. Þeim var þar að auki gert að sýna þekkingu og skilning á helstu lögmálum félagabjörgunarinnar en til þess að hún takist vel þurfa björgunarmenn að halda ró sinni sama hvað á gengur, tala af yfirvegun til fórnarlambsins og spyrja það, áður en taki er sleppt á fórnarlambsbátnum, hvort ekki sé örugglega í lagi með viðkomandi. Að þessu sinni þurfti enginn að fá heitt kakó eða ullarhúfu á höfuð eftir volkið enda ágætur hiti í innilauginni. Ungliðunum gafst þar að auki kostur á að prófa alvöru sjókayaka og fengu tilsögn í róðratækni.

Hugmyndin að kynningunni kviknaði í haust eftir að Kjölur sá um gæslu í Hvammsvíkurmaraþoninu í þúsundasta skipti eða svo. Kayakklúbburinn þakkar ungliðunum í Kili fyrir skemmtilegan dag og við vonumst til að sjá einhver þeirra á sjó innan tíðar.

Hér má sjá myndir af æfingunni: