Elba

28 júl 2008 14:30 #1 by Orsi
Replied by Orsi on topic Re:Elba

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

23 júl 2008 02:36 #2 by Sævar H.
Replied by Sævar H. on topic Re:Elba
Takk fyrir góða og skemmtilega róðarasögu frá útlandinu- þetta hefur verið mikið upplifelsi og ábyggilega gaman og nýnæmi að róa inna um fólk á vindsængum...

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

23 júl 2008 01:25 #3 by Reynir Tómas
Replied by Reynir Tómas on topic Re:Elba
Frábær ferðasaga, takk fyrir.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

22 júl 2008 20:19 #4 by Orsi
Elba was created by Orsi
Mér dettur í hug að taka saman róðrarskýrslu um nýafstaðinn róður með ítölskum kayakbræðrum umhverfis eyjuna Elbu á vestanverðum Ítalíuskaga. Þarna var um að ræða 150 km hringróður sem skipt var niður á 5 daga, gist í tjöldum og eldað að hætti Ítalanna. Með mér í för voru Carlo, Danielle og heimamaðurinn Gaudenzio, allt dugnaðarforkar.

Elba er um 250 km norðan við Róm og næstu nágrannar eru Korsíka, Sardinía og Capri svo fátt sé nefnt. Eyjan er skógi vaxin og fjöllótt, rík af sögu og öll hin fallegasta. Þar bjó Napoelon 1814-1815 og setti sinn svip á mannlífið þar. Gaman er að skoða slóðir hans og koma inn í sumarhöllina í S. Martino en nóg um það. Eyjan er í raun þjóðgarður og mjög vinsæl meðal íbúa Toskanahéraðs og Mílanóbúa. Auk þess koma þar þjóðverjar í töluverðum mæli og fleiri útlendingar.

Hringróðurinn var á vegum Seakayak Italy sem leigir bátana og er með starfsstöð á eyjunni, nánar tiltekið í Marciana Marina. Og þar hófst ferðin eftir að hafa verið frestað um einn dag vegna veðurs, (SV 14 msek - okkur Gaude dauðlangaði út einmitt þann dag en hann þorði ekki að stefna Carlo og Danna út í hopperíið. Svoleiðis að við fórum bara í fjallgöngu og síðan út að borða. Daginn eftir, 15. júlí var komin N 5-8 msek og út var haldið meðfram eyjunni norðanverðri með fulla báta af vistum og vatni. Reyndar var ágætis hopperí þann dag og í raun mesta furða að ekki skyldi neinn hvolfa miðað við að Carlo og Danni voru að stíga sín fyrstu spor á kayak. En svolítil sjóveiki, gubberí og stirðar axlir voru fórnarkostnaðurinn í lok dags og eftir það gekk allt vel. Við vorum á fínum bátum, Carlo og Danni réru á bátum af gerðinni Sea Kayak Design sem eru hannaðir af Raymond Varraud sem áður gerði báta fyrir Qajaq sem íslenskir ræðarar þekkja mætavel. En hann hefur semsé hætt hjá Qajaq og byrjað framleiðslu undir eigin merkjum. Ég tók hinsvegar bát af gerðinni Overline Aretusa 540x54 hraðskreiður ferðabátur sem minnti á blöndu af Seawolf og Greenlander Pro.

Dagarnir voru teknir snemma, byrjað á espressókaffi og kexi, róið út og tekið 3 tíma kaffistopp um hádegið með matarveislu og blundi. Aftur róið út og valin náttstaður og eldað, spjallað og tjaldað. Róðrardagarnir voru fremur léttir. Að sjálfsögðu er fólk út um allt, enda er fjöldi gesta 400 þúsund yfir sumartímann. Það var ný reynsla að olnboga sig í gegnum þvögu af fólki á vindsængum til að komast upp á land með báta og búnað til að geta tekið sér kaffipásu. En að sjálfsögðu er hægt að finna sér mannlausar strendur ef maður vill. En það var orðið ávanabindandi að komast í ísbúð eða bjórkæli eftir heitan róður.

Þarna var margt að sjá, villtar geitur á klettasnösum, sjávarhella, hvítar klettastrendur og gylltar sandstrendur og sjórinn kristaltær og oftast sléttur. Næstsíðasta daginn, þegar róið var fyrir Enfola höfðann, var sjórinn kekkjóttur í meira lagi en allir komust þurrir í tjaldstað. Carlo, sextugur arkítekt frá Flórens, var hinn kátasti og lærði veltuna í ferðinni og var orðinn harðákveðinn í að kaupa sér bát í haust og taka annan Elbuhring í september. Danielle, fyrrverandi fallhlífastökkshermaður, setti stefnuna á Baja eftir þennan róður og varð heillaður af sportinu. Og mér fannst þetta hin frábærasta ferð - og er hvorki hermaður né arkítekt. Marglyttur og moskítóflugur krefjast samt varúðar víða. Marglytta, sem ekki hafði fyrir því að kynna sig, gaf mér vægast sagt beiskan selbita á kálfann í eitt skiptið sem ég var að sýna tilþrif í sjósundi að hætti Grettis Ásmundarsonar. Ég meig ekki á sárið en djöfuls sviði fylgdi þessu.

Og hvað kostar svona túr? 400 evrur, og maturinn kannski 70 evrur til viðbótar. Gaudenzio gaf mér 50 evrur í afslátt af einhverjum orsökum. Í ferðalok bað hann mig síðan afsökunar á því að ekki hefði verið nógu hvasst í veðri fyrir mig. Engu að síður var stundum hið þokkalegasta lens eftir umferð hinna fjölmörgu báta sem þarna eru á ferð, svoleiðis að maður gat leitað uppi fjör ef mann langaði. Myndir voru teknar sem ættu að mjatlast inn á næstu dögum.

Að lokum má geta þess að það hittist svo skemmtilega á að Þorsteinn okkar Guðmundsson var flugstjóri frá Mílanó á heimleiðinni. Það er ekki laust við að dálítið hafi verið rætt um kayakmál í flugstjórnarklefanum.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum