Ferða dagskrá 2013

Skýringar á "árum"/erfiðleikastigi ferða er að finna hér.

20. Apríl - Engey, Akurey og Grótta

Frá Örfirisey. Tökum hring um Engey, Akurey og jafnvel út í Gróttu ef veður verður gott.
Nánar síðar

Umsjón: Gunnar Ingi

04. Maí - Kjalarnes

Grundarhverfi - Andriðsey - Gundarhverfi
Nánar síðar

Umsjón: Sigurjón Magnússon /  Smári Ragnarsson

02. Júní - Hörpuróður (Sjómannadagur)

Ath. Róður á laugardeginum 1. júní.

Róið verður með landi, fyrir Laugarnes, hjá Hrafnslaupnum, um Rauðarárvíkina, hjá Sólfarinu og inn í Reykjavíkurhöfn. Eftir róður um höfnina, verður kaffistopp við Sjóminjasafnið, hjá gamla Daníelsslipp. Þar mega gestir og gangandi skoða búnað okkar og báta á meðan við nærum okkur.

Mæting verður við Skarfaklett kl. 12.00 og róið af stað kl. 12.30. Komið aftur um kl. 16.

Umsjón: Bjarni Kristinsson

08. Júní - Gálgahraun

Frá Garðabæ. Róður með Gálgahrauninu að Álftanesi.

Við förum út frá rampi við Ránargrund í Sjálandhverfi Garðabæjar kl. 10:00. Mæting kl 9:30.

Leiðarlýsing : Beygja af Hafnarfjarðarvegi við Olís vestur Vífilsstaðarveg, 3/4 hringtorg, og aftur 3/4 hringtorg inn á Ránargrund.  Strax til hægri eru bílastæði sem vonandi taka við okkur öllum :)

Við róðum svo inn í Hraunsvík, meðfram Gálgahrauninu, hring um Lambhúsatjörn og út að Arnarnesi.  Hugsanlega kíkum við inn í Kópavoginn og síðan til baka að inn í Arnarnesvoginn.  Þegar verða verða ca 10-15 km.  Verðum komin til baka ca 13-14.  Einhversstaðar finnum við stað fyrir kaffistopp.

Umsjón: Gunnar Ingi Gunnarsson

22. Júní - Jónsmessuróður

Ákveðið hefur verið að færa Jónsmessuróðurinn á laugardaginn 22. júní. Þetta er gert til að sem flestir geta komið með í þennan skemmtilega róður!Róið verður frá Hvammsvík, þetta er léttur róður og ætti að henta öllum.  Mæting kl 21:00 við bryggjuna . Það hefur oft myndast skemmtileg stemning í Jónsmessuróðrum hjá okkur í Hvalfirðinum!  Við munum grilla saman í fjörunni áður en lagt verður af stað. Áætlað er að róa af stað kl 22:00. Stefnt er að því að koma að landi aftur um miðnætti. Það verður eitt kaffistopp

Umsjón: Einar Sveinn Magnússon / ÖI

29. Júní - Kolgrafafjörður

Áætlað er að hefja róður úr Hofstaðavogi og halda í Bjarnarhöfn og tjalda þar við Kumbaravoginn, annan daginn frá Bjarnarhöfn í Kolgrafafjörð og halda yfir í Grundarfjörð þriðja daginn. Róðrarlengdir án útúrdúra eru uþb 10, 15 og 25 km. Ferðin er áætluð þrír dagar en má annað hvort byrja á föstudegi eða laugardegi eftir því sem best hentar.
Nánar síðar

Umsjón: Örlygur Sigurjónsson /  Páll Reynisson

06. Júlí - Reyðarvatn

Fallegt fjallavatn þaðan sem er frábært útsýni á vesturjökla hálendisins, Langjökul með Þórisjökli og Geitlandsjökli og Okið með Fanntófelli, svo Skjaldbreiður og á Botnssúlur og Hvalfell.

Við hittumst laugardaginn 6. júlí (sunnudagur 7. júlí til vara) við veitingaskálann á Þingvöllum kl. 10.30.-11.00, keyrum inn á Kjalveg, inn að Uxahryggjarvegi og vestur þann veg inn undir Þverfell.  Áður en vegurinn fer niður í Lundareykjadal er stuttur afleggjari til hægri (norðurs)yfir lágan háls í Selvík við vatnið.  Við róum inn með Þverfelli í Helguvík þar sem Grímsá rennur úr vatninu. S koðum fossa sem eru þar rétt neðar í stuttri gönguferð, róum svo inn vatnið aftur og tökum góða áningu nálægt Fossatjörn, áður en haldið er tilbaka.

Róðurinn er auðveldur, alls um 10 km. Áætlum um 4 klst í ferðina. Ferðatími frá Reykjavík um Þingvelli er um 1 og hálf klst og tilbaka getur verið gaman að aka niður Lundareykjadal og fara Dragháls og Hvalfjörð tilbaka. Vegir eru ágætir, líka afleggjarinn við vatnið.

Umsjón: Reynir Tómas Geirsson

13. Júlí - Kúagerði - Álftarnes

Róður færður að 14. júlí

Mæting kl 09:30 við Melshöfða og bátar sjósettir kl 10:00. Róið í átt að Hafnarfjarðahöfn höfnin síðan þveruð. Fyrsta stoppið verður við gólfvöllinn Keilir, nærri gamla sædýrasafninu sem þar var. Gullið tækifæri að rifja upp gamlar stundir í safninu. Aldrei að vita nema við rekumst á gamla stjörnur safnsins t.d. ljón eða ísbjörn í felum. Næsta stopp á milli Straumsvík og Hraunsnes, Verður stoppað milli Straumsvík og Hraunsnes til að fá sér að borða. Ferðin heldur síðan áfram inn í Stekkjarvík og endar þar túrinn endar.

Þetta verður um 20 km túr. Tími ræðst af róðrarhraða en ca 4,5 tíma sé miðað við 5 km/klst róðrarhraða og hálftíma stoppi.

Ferðin byrjar og endar ekki á sama stað því þarf að ferja báta og fólk milli staða.

Þetta verður auglýst nánar þegar nær dregur.

Umsjón: Sigurjón Magnússon

09. Ágúst - Breiðafjörður


Breiðafjörður 9.-11. ágúst.

Þetta er Breiðafjarðarferðin góða, helgina eftir verslunarmannahelgi, sem að þessu sinni er í eyðines á innanverðri Barðaströnd.

Menn fara úr Reykjavík nægilega snemma á föstudegi 9. ágúst (ekki fara seinna en kl. 12-13 frá höfuðborgarsvæðinu) og aka vestur í Búðardal og áfram í Reykhólasveit, framhjá Reykhólum út að Stað á Reykjanesi. Þangað er um 3 og hálfrar klst. akstur úr Reykjavík. Ekið er neðan við Stað og veg framhjá fjárhúsum þar niður að höfn sem heitir Klauf. Þar verður lagt af stað um og uppúr kl. 17.00. Þar er gott að geyma bílana líka og ábúendur vita af okkur. Fjara er um kl. 15-16, en gott að leggja af stað þarna. Við róum svo út framhjá Mávey yfir að Skálanesi og inn með því inn í Kollafjörð, þverum svo fjörðinn í norðvestur yfir að eyðibýlinu Bæ. Við lendum vestan við eyjuna Snoppu þar sem mun vera góð lending og við megum tjalda í gamla túninu vestan til og erum þá um 100 m neðan við gamla bæjarstæðið og sumarhús sem er þar. Þarna munu vera útihús þar sem við megum þurrka af okkur ef þarf, rennandi vatn í krana (heitt ef eigendur eru á staðnum) og salerni sem við megum nota. Þetta er alls um 9 km kvöldróður og við ættum að koma þarna nálægt flóði um kl. 20-21.


Næsta dag förum við fram með Bæjarnesinu 5 km milli smáeyja og skerja þar (Snoppa, Hallgrímsey), inn Kvígindisfjörð og að Kirkjubóli, þar sem verður áð (þar er líka sumarhús)og eigendur vita af okkur eins og alls staðar þarna. Svo þverum við fjörðinn yfir á Straumnes (það eru straumar á svæðinu) og í Svínanes og lendum í Kumbaravog. Þar standa húsin ekki lengur en lítið sumarhús mun vera þar. Þetta eru um 4 km í viðbót. Við gætum svo skoðað Svinanesið og farið inn í Skálmarfjörð og jafnvel farið yfir í Skálmarnesmúla, en sennilega er best að fara inn í Bæ aftur ca. 8-10 km leið í venjulega kvöldveislu og gleði ræðaranna. Mér er sagt að á þessu mjög svo veglitla og fáfarna svæði sé einkar fallegt og eflaust er fuglalíf gott og ekki ólíklegt að sjá haförn. Svo eru sögur af lífi fólksins sem þarna bjó.


Sunnudaginn 11. ágúst róum við svo tilbaka í Klauf, kannski með krók inn Kollafjörðinn eða að leirunum austan við Skálanes til að sjá fuglalífið þar áður en einhverjir misvitrir fara í það að eyðileggja mynni Gufufjarðar með vegalagningu, en allt fer þetta eftir vindi, straumum og sjávarföllum.

Umsjón: Reynir Tómas Geirsson

17. Ágúst - Hvalfjörður Hvítanes-Þyrilsey

Róum frá Hvítanesi í Hvalfirði beint yfir á Þyrilsnes, inn með botnsvogi og kaffistopp í Þyrilsey. Þaðan í Brynjudalsvog og aftur í Hvítanesið. Þetta er sirka 12 - 14 km. Róður með byrjendur og nýliða sérstaklega í huga.  Nóg af kerruplássi,.

Umsjón: Smári Ragnarsson

14. Sept - Þingvallaferð  (Róið innan Þjóðgarðs)

Frestum ferð.  Finnum fallegan dag í lok sept eða í október fyrir þetta fallega róðarsvæði.

Ferð verður að fara að hausti eftir veiðitímann og ekki mundi skemma að haustlitirnir væru komnir
Nánar síðar

Umsjón: Einar Sveinn Magnússon