Róið út í eyju þvert á straum.

27 mar 2014 11:39 - 27 mar 2014 11:42 #1 by Gíslihf
Ekki slæmt að fá innlegg frá skipstjórnarmenntuðum manni og frá skútukarli.
Siglingafræðin eftir Franco Ferrero er með hagnýtum minnisreglum og nokkrum aðferðum til að leysa verkefni með teikningu en án allrar stærðfræði.
Svo er reynslan notadrjúg, eins og þjálfun í að nota mið sem Gummi talar um. Við getum svo velt fyrir okkur hvað á að gera þegar við sjáum aðeins sæbratta strönd og engan punkt þar fyrir aftan - og hvað á að gera þegar ströndin sést ekki heldur. Geymum það.

Ef einhver er með tölur eða heimildir um rek sjókeipa undan vindi væri gott að fá þær til viðmiðunar. Einnig mætti gefa undir hvaða horni þarf að stefna upp í vind til að halda óbreyttri stefnu miðað við logn og tiltekinn róðrarhraða.
Ég hélt ég hefði séð eitthvað um þetta hjá Brown (Sea kayak) en finn það ekki og það kostar talsverða vinnu og mælingar ef við ætlum að finna þetta sjálf, en notin eru reyndar meiri fyrir slíka þekkingu hér á landi en víðast hvar annars staðar.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

26 mar 2014 19:50 - 26 mar 2014 19:52 #2 by Gummi
Út frá þessu hjá honum Gísla þá fór ég að hugsa hvernig geri ég þetta alltaf. Ég er reyndar búin að vera að sigla og róa smá kænum og kayökum ásamt stærri skútum í 40 ár og búin að prófa ýmislegt.
Þegar ég þvera firði eða svona sund þá vel ég mér einhvað landamerki jafn langt uppi á fastalandinu og mér er mögulegt og stefni á það (ef ég er ekki með kompás). Tek síðan reglulega stöðuna hvort ég sé að reka til vinstri eða hægri og ef ég er td að reka aðeins of mikið til hægri þá finn ég mér annað landamerki aðeins lengra til vinstri og stefni á það, tek svo stöðuna fljótlega aftur og ef ég er sáttur við útkomuna þá held ég mig við landamerkið þar til ég er komin það nálægt landi að tími sé komin á að skoða hvernig vindur og straumar haga sér nær landinu.
Ef maður er að sigla skútu, eða kænu þá verður maður var við að vindurinn er mjög breytilegur og getur munað 10 - 20° á vindstefnuni úti á sjó þar sem land og byggingar hafa ekki áhrif. En þegar nær dregur landi getur munað upp í 30°. Það er ástæðan fyrir því að þeir sem eru að keppa í siglingum á skútum eru stöðugt að venda þegar sigldur er beitivindur. Það er verið að elta vindskipti og sá sem er duglegastur að finna út réttu vindskiptin getur rúllað upp keppnini á einum beitivinds-legg. Þetta getur líka haft áhrif á þá sem eru að róa, því oft er styssta leiðin ekki sú fljótfarnasta. Bæði vindar og straumar geta haft gríðarleg áhrif og því meira af orku sem spöruð er með því að láta vind og strauma aðstoða sig því lengra er hægt að róa, eða því fljótari er maður að róa fyrirfram gefna leið.

Prófið þetta sjálf, finnið ykkur punkt í landi (ofan í fjöru) sem ykkur langar að hitta á, takið mið langt inni í landi (fjall eða mannvirki) sem ber í þennan punkt. Róið í einhvern fyrirfram ákveðin tíma td. 5 mínútur með stefnu á punktinn sem er langt inni í landi (ekki nota kompás) og þá sjáið þið hvað þið eruð búin að reka langt framhjá punktinum við ströndina. Þetta er mjög góð æfing til að átta sig á hvað keypurinn ykkar er að reka mikið án þess að þið hafið nokkra hugmynd um það.

Kv. Gummi J.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

25 mar 2014 18:22 #3 by Ingi
það er gaman að spá í þessa hluti eins og Gísli gerir í þessu dæmi.
Í 1. stigi í Stýrimannaskólanum er farið í þessa hluti og örugglega líka í Pungaprófinu sem flestir ræðarar ættu að fara í. Þó að það sé ekki metið í stjörnuskala BCU þá er margt praktískt sem kemur að gagni þar fyrir þá sem hafa gaman af þessum fræðum og vilja bæta kunnáttu sína. Pungaprófið er aðlagað að íslenskum aðstæðum og nýtist því ágætlega þeim sem róa á kayak.

En hvað dæmi Gísla varðar þá er það dæmi um stefnu sem er frá korti til kompáss eða straumþríhyrningur II
Straumþríhyrningur I er svo frá kompás til korts..

Einnig kemur fram í þessum pistli Gísla atriði sem er miklilvægt þegar siglt er í mikilli umferð skipa að ef að miðun til skips breytist ekki þá er árekstur í aðsigi. En í dæmi hans er það til eyjarinnar sem miðunin breytist ekki og að hann ætlar sér þangað.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

21 mar 2014 15:00 - 21 mar 2014 15:02 #4 by Gíslihf
Í siglingafræði Ferrero (bls. 93-94) er bent á að nota sér fallastraum. Hér eru nánari pælingar um þetta efni: Eyja er d sjómílur frá landi, straumur (Vs hnútar) liggur með landinu frá hægri og róðrarhraði (Vr) þinn er t.d. 3 kn. Hvar er best að fara á sjó?

Svar: Finndu ferðatímann á lygnum sjó t=d/Vr t.d. ef d=4,5 nm þá er t=4,5/3=1,5 klst. Á þeim tíma ber straumurinn þig X=Vs* t Ef straumhraði er t.d. 2 kn X=2*1,5= 3 nm Þá væri best að byrja 3 sjómílur móti straumi frá þeim stað sem er beint móti eyjunni.

Það á að stefna bátnum beint frá landi og hann mun berast að eyjunni, sem þú sérð útundan þér á vinstri hönd. Ef straumurinn er jafn og útreikningurinn réttur, á hornið sem sjónlína til eyjarinnar myndar við langás bátsins ekki að breytast allan tímann.

Það er hægt að sanna með flóknari útreikningum að róðrartíminn til eyjarinnar er stystur frá þessum stað og læt ég útreikninga mína fylgja í viðhengi fyrir þá sem hafa gaman af stærðfræði, skjalið er að finna undir Ýmislegt í skjalasafni:
kayakklubburinn.is/index.php/klrinn-main...iglingafraedhi-daemi

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum