Steini í Brattastraumi

Klúbbferð, farin 5. - 7. ágúst 2005. Róið um eyjar og strauma sunnan Breiðasunds í Hvammsfjarðarmynni. Upphaf og endir: Drangar á Skógarströnd.

 

Þetta var ferð á vegum Kayakklúbbsins í farastjórn Reynis Tómasar. Fólk tók að tínast á staðinn föstudagskvöldi 5. ágúst við bæinn Dranga í Drangavík á Skógarströnd misjafnlega gekk mönnum að finna þetta þar sem slóðin niður í fjöru þar sem tjaldbúðirnar voru lá yfir móa og mela og óslegið tún, en eftir að sett var upp ári og gott skilti við veginn römbuðu nú menn á þetta, allavega hefur enginn kvartað.

 

Klukkan tíu morguninn eftir réri svo á stað myndarlegur hópur tuttugu ræðara á nítján bátum. Stefnan var tekin yfir Ófeigssund á Suðurey en þar í kletti má sjá gríðarstórt spor eftir þurs sem þar hefur verið á ferð, þaðan var róið í rólegheitunum með straumi, enda komið útfall, á milli eyja og skerja. Þegar við nálguðumst Gvendareyjar mátti heyra þungan nið frá Brattastraumi sem er þar við norðanverða Bæjareyjar, en á þeirri ey eru tvö reisuleg hús. Hugmyndin var að borða nesti í eynni og ganga svo og líta á þennan fræga straum "Brattastraum". Áður enn farið er í svona ferð þarf að hyggja að ýmsu, þar á meðal að tala við landeigendur til að fá að fara með svona stóra hópa um eyjarnar, þar á meðal hafði Reynir reynt að hafa samband við ábúanda Bæjareyjar, en án árangurs skildu menn það eftir að hafa hitt viðkomandi því hann sagði ekki meira en það allra nauðsynlegasta, sennilega með kvóta fyrir daginn uppá tvö til þrjú orð. En það reyndist auðsótt að fá að setjast niður og borða nesti og rölta norður eyna á eftir, enda kostaði það ekki nema tvö "já".

Þegar búið var að líta á Brattastraum taldi formaðurinn auðsótt að róa niður hann og fylgdi gjaldkerinn honum, sumum leist ekki á að svo stór hluti stjórnarmanna legðu sig í slíka hættu á sama tíma, en allt fór þetta nú vel. Þegar hinir höfðu fylgst með, var lagt á stað niður næsta streng og gekk það allt vel og var tekin létt æfing þar að róa uppí og yfir straum.

Lá nú leið okkar út Látrasund, fyrir Bænhúsastraum og inn í Eiríksvog þar sem Eiríkur-Rauði mun hafa gert út skip sitt, enda hin besta höfn. Þá var róið austur Geysindasund upp með Akurey allaleið að Galtarey, það getur verið svolítið snúið fyrir ókunnuga að þekkja allar þessar eyjar í sundur, en allavega, að lokum fannst Galtarey, enda eins gott þar sem hugmyndin var að hafa þar seinna kaffistopp dagsins. Þar er annar straumur, Gagneyingur að nafni, sem er býsna stríður og var hann að aukast á meðan við vorum þarna enda komið á aðfall, þurftum við að róa á móti honum til baka suður í Brokey þar sem slegið var upp tjaldbúðum. Kayakferðir eru annálaðar fyrir mataveislur og var þarna engin undatekning, sumir grilluðu dýrindis steikur og aðrir suðu pylsur. Sólarlagið var fallegt um kvöldið þar sem roðinn sló birtu undir blikuna sem var að draga uppá himininn, enda var veðurspáin ekki góð fyrir seinni daginn.

Morguninn eftir var farið að hvessa af austri og var ákveðið að taka saman í fljótheitum og róa stystu leið í land. Á leiðinni sást til þriggja arna þar af einn ungi, róðurinn gekk ágætlega þrátt fyrir hliðarvind upp á 8m/s og töluverða öldu, allavega komst allur hópurinn klakklaust heim að Dröngum. Erfiðasti áfangin var þó eftir og það var að keyra í bæinn með kerrur og báta á toppnum, þar sem veðurhæðin undir Hafnafjalli var 43m/s í vindkviðum, undirritaður ákvað eftir að hafa áð í Borganesi að fara dragann og var það ögn skárra enda á þessum tíma fuku þrír tengivagnar ásamt bílum út af veginum við Hafnafjall, voru því margi fegnir því að komast heim, eftir þó annar frábæra ferð.

Eftir svona ferð hugsa menn gjarna til baka og spá í hvernig þetta hefði mátt vera öðruvísi, þegar farið er með svona stóran hóp fólks sem er misjafnlega á vegi statt í kayakvísindunum, þá getur ýmislegt komið uppá. Áður en við lögðum á stað heim þá brýndum við það fyrir fólki að halda hópinn eins og kostur væri, eins var mönnum uppá lagt að vera tveir og tveir saman, þ.e. fylgjast þá hver með öðrum, svo settum við tvo vana til að reka lestina. Reyndar gerðist það svo á leiðinni yfir Ólafeyjarsund að hópurinn tvístraðist og eftir á að hyggja hefði verið betra að fara yfir vestar í skjóli við þær eyjar sem þar eru, þótt það væri lengri leið, en allt fór þetta nú vel og voru allir mjög ánægðir með ferðina og á ferðanefnd heiður skilið!

Myndasafn = {2005-08-Hvammsfjordur}