Hesturinn

Út úr þokunni barst vélarniður. Það hlaut að vera trilla. Ekki er neinn vegur um Hestinn. Algjört eyðines. Einungis rústir frá glæsitímum þarsíðustu aldar og ekkert meir. Vélarhljóðið færðist nær, sennilega hraðfiskibátur..........

Að grípa kajakinn sinn seinnipart dags og skreppa út í tvo til þrjá tíma, slaka á einn meðal fugla, kletta, þarailms og annars sem hafinu fylgir, er ein besta slökun sem undirritaður hefur komist í tæri við á lífsleiðinni. En það sem gerir sjókajakinn hættulega vanabindandi eru ferðalögin. Kajakferð er alveg einstök upplifun. Að vera með allt sitt hafurtask til nokkra daga ferðar komið niður í lest og vera að ýta úr vör er alltaf jafn mikið ævintýri. Undirritaður fór ásamt tveimur félögum í eina slíka ævintýraferð í byrjun águst á síðastliðnu ári. Ýmislegt smáræði varð til að gera þessa ferð eftirminnilega. Við ókum úr bænum seinnipart miðvikudags og stefnan var vestur í Ísafjarðardjúp. Eina markmiðið var að vera kominn á Ísafjörð ekki seinna enn á laugardagsmorgni því þar var ætlunin að sýna heimamönnum báta og búnað. Ókum við sem leið lá vestur að Arngerðareyri, sem er viðkomustaður djúpbátsins innst í Ísafjarðardjúpi. Höfðum við samið við skipsverja um að taka fyrir okkur ökutækin inn á Ísafjörð. Talsverðan tíma tók að pakka í bátana og að því loknu var expresso könnunni skellt yfir og tekinn einn bolli fyrir átökin. Við undirritaður, Spessi ljósmyndari og brennuvargur og Gunni múrari og Bessastaðabikarhafi rérum síðan af stað rúmlega tvö eftir miðnætti og stefndum til að byrja með á Reykjanes við Ísafjarðadjúp, ætluðum að skoða þar kóralfjöruna. Gunni var á nýjum bát, og þegar yfir fjörðinn var komið var hann orðinn uppgefinn í mjóhryggnum. Ljóst var að taka þyrfti land til að stilla betur af bakstuðninginn. Það var gert. Þegar halda átti áfram kom fyrsta undur ferðarinnar upp á yfirborðið. Einhver spurði “hvað er klukkan”. Ekkert svar. Enginn var með svoleiðis þrátt fyrir annars ágætt skipulag. Þarna rérum við svo út úr tímanum í þrjá daga. Yndislegt.

Það var nýr dagur að skríða inn djúpið. Spessi fann rekaviðadrumb þar sem heitir Biskupsvík, yst á Vatnsfjarðarnesi, og ákvað að þar skyldi eldað og sofið. Það var ekki sofið lengi, því við áttum stefnumót við blaðajöfurinn og kajaksnilling þeirra Ísfirðinga Dóra Sveinbjarnar, í Ögri þá um kvöldið. Þangað ætlaði hann að láta skutla sér og sinni fleytu, og róa þaðan með okkur.

Þegar við rérum út fyrir Vatnsfjarðarnesið fengum við í fangið nokkuð sterka norðvestan átt og þannig var það, átakaróður næstu 19 kílómetrana í Ögur. Þá var að byrja að halla degi.

Í Ögri var grillað í fjörunni og hefðbundinn varðeldur, í minni kantinum samt. Þoka læddist inn og svo innan úr þokunni birtist Dóri róandi. Dóri fékk kaffi og ákveðið var að halda áfram yfir í Hest, krossa bæði Hestfjörð og Skötufjörð í einni atrennu. Þokan var orðin ansi þykk og til öryggis stungum við út stefnu eftir korti og slógum inn punkt í GPS tækið. Þegar við komum út fyrir Ögurnesið var þokan orðin ansi þétt, kannski 30 til 50 metra skyggni. Ofurhugarnir vildu bara skutlast yfir, enda ekki nema um 5 kílómetra kross að ræða. Ekki stórmál. Varkárari armur hópsins vildi þó fara að öllu með gát. Skotið var á fundi og staðan metin. Sjórinn var alveg spegilsléttur, ekki ein lítil misfella, það var blankalogn og allir vorusaddir og hamingjusamir.

Það var ákveðið að láta slag standa. Undirritaður lagði áttavitann fyrir framan sig á svuntuna og svo var róið af stað. Þegar landið hvarf í þokuna varð allt frekar skrýtið. Undur númer tvö. Það var byrjað að birta aftur. Þokan náði greinilega ekki mjög hátt upp. Og þannig varð allt samlitt, undanrennuhvítt. Þokan rann saman við sjóinn, og undirritaður sem réri fremstur missti allt rauveruleikaskyn.  Jafnvægið hvarf úr mjöðunum og áttirnar læddust burt. Þegar svo vel vildi til að sjófugl birtist kom jafnvægið, enn hvarf svo aftur með honum. Fyrir aftan mig heyrði ég stöðugt “ ekki beygja í þessa átt” og að lokum varð ég að fá einn bát við hliðina á mér bara til að átta mig á hvað snéri upp og hvað niður. Svona hef ég aðeins áður upplifað í stjörnuvitlausri blindhríð á fjöllum.

Til að vera nú öruggur um að lenda ekki í því að sigla óvart út djúpið út á Halamið, hélt ég stefnuna ávallt örlítið innanvið. Strauma vissum við lítið um á þessu svæði. Þegar okkur fannst að við ættum að vera komnir yfir og hvergi bólaði á landi var skotið á fundi og splæst í kaffi. Ákveðið var að kveikja á GPS tækinu til að fá úr því skorið hvort áttavitinn væri bilaður (sem flestum fannst orðið líklegt). Nútímatæknin sagði enn smá spöl í land og öllum að óvörum, samþykkti stefnuna nokkurn veginn. Allir önduðu léttara.  Skömmu seinna heyrðist kallað “land”. Það var ekki nein góð landtaka sjáanleg og við áttuðum okkur heldur ekki alveg á því hvar við vorum, þannig að við dóluðum okkur í bátunum, stoppuðum og gripum í samlokur og djús. Út úr þokunni barst vélarniður. Það hlaut að vera trilla. Ekki er neinn vegur um Hestinn. Algjört eyðines. Einungis rústir frá glæsitímum þarsíðustu aldar og ekkert meir. Vélarhljóðið færðist nær, sennilega hraðfiskibátur. Okkur fannst hann stefna óþægilega beint á okkur. Á þessari ferð átti hann ekki möguleika á að stoppa eða sveigja frá þegar hann loksins kæmi auga á okkur. Okkur fannst hann einnig vera hættulega mikið inn á grynningum. Allir voru orðnir varir um sig. Svo skyndilega fannst okkur að hann hlyti bara að birtast þá og þegar og hreinlega sigla okkur niður. Skyndilega flugu samlokur og djúsbrúsar fyrir borð og menn gripu árarnar. Hljóðið hreinlega kom yfir okkur og fór svo jafn skyndilega til baka. Enginn skildi neitt. Það rann samt smátt og smátt upp fyrir okkur að þetta hafði sennilega verið flutningabíll. Jamm.

Við skyldum þetta ekki alveg. Það þýddi að við vorum ekki í Hestinum. Milli Skötufjarðar og Hestfjarðar liggur Hvítanes. Það nær ekki nema svona hálfa leið út í sjálft djúpið. Þar liggur vegurinn alveg í fjörunni. Vegna þess hvað þokan var þétt sáum við aldrei veg og ekki heldur bíl. Enn svona var þetta. Af ótta við að lenda út fyrir Hestinn höfðum við stefnt full innarlega og lent á Hvítanesoddinum.  Sennilega hafa straumar einnig hjálpað til. Mjög sérstök upplifun.Við héldum áfram yfir í Hest og þar var tjaldað. Sumir sváfu þó úti því veðrið var eins og best verður á kosið.

Þegar við vöknuðum var heiðskýrt og sól og dúnalogn. Út á Djúpinu blasti Vigur við okkur í um það bil 6 kílómetra fjarlægð. Þangað var stefnan tekin að loknum morgunæfingum. Morgunbálið var skilið eftir til að deyja.

Þegar við komum í Vigur voru heimamenn í fjörunni að taka upp bát. Við buðum góðan dag. Þeir horfðu á okkur dágóða stund og sögðu svo “ hérna bjóðum við alltaf gott kvöld um þetta leiti, má ekki bjóða ykkur kaffi”.

Eftir veitingar og rölt um eyjuna var haldið áfram. Á Ísafjörð voru 23 kílómetrar, og þar vildum við vera í morgunsárið.

Undirritaður hafði bátaskipti í Ögri. Fór í bát án þess að gefa sér nægan tíma til að stilla hann af fyrir sig, bakstuðning og annað. Eftir að við fórum frá Vigur byrjaði ég að finna til þreytu í mjóhryggnum. Á Kambsnesinu urðum við að fara í land til að hvíla bakið, og þar splæsti Spessi í stóra brennu, minnsta kosti tvö stór bretti sem hann fann þarna í grjótinu. Við rérum svo af stað og það var að byrja að blása. Stefnan var tekin yfir Álftafjörðinn og þaðan út með Súðavíkurhlíðinni. Miðsvegar yfir Álftafjörðinn fór mjóhryggurinn virkilega að angra mig, og það er allt annað enn gott að lenda í því út á miðjum firði. Undir Súðavíkurhlíðinni er heldur ekki víða hægt að lenda, þannig að það var bara hægt að halda áfram. Það smátt og smátt hvarf allt jafnvægi, og næstu 20 kílómetra réri ég sannfærður um að næsta áratak smellti mér í sjóinn. Þetta kenndi mér mikilvægi þess að stilla bátinn vel af fyrir sig áður enn haldið er í langferð. Þessum bát hafði ég aldrei róið nema stutta túra, 2 til 3 tíma mest. Þetta var undur númer þrjú. Við rérum síðan inn úfinn Skutulsfjörðinn, en pollurinn á Ísafirði var spegilsléttur að venju. Við lentum í fjörunni innst inn í firði um það bil sem skemmtanglaðir vestfirðingar voru að rölta heim eftir velheppnaðan gleðskap. Það voru 80 kílómetrar að baki og allir voru þreyttir svangir og ánægðir. Við héldum með hafurtaskið heim til Dóra og dreifðum okkur þar um gólfin. Virkilega skemmtileg ferð var að baki, og nú bíður maður spenntur eftir næsta kajaksumri.

Pétur Blöndal Gíslason
Hvammsvík