Keppnisnefnd hefur fjallað um keppnisreglur og ákveðið að gera sem minnstar breytingar á þeim, þó var ákveðið að bæta skilgreiningu á flokkun báta.

Í fyrra var keppt í tveimur flokkum sjókayaka:

  • Flokkur-1. Keppnisbátar og brimskíði (þ.m.t. Rapier, Ocean X, Nelo og brimskíði)
  • Flokkur-2. Ferðabátar (þ.m.t. Kirton Inuk).

Það getur verið umdeilt hvenær bátur fer yfir mörk þess að vera hraðskreiður ferðabátur eða keppnisbátur. Til að skerpa á flokkuninni var ákveðið að tengja hana við hlutfall lengdar sjólínu (L) á móti breidd sjólínu (W).


Flokkunarkerfi Tom Cartmill byggir á þessu hlutfalli og lýsingu á því má finna á eftirfarandi netsíðum

soundrowers.org/DeterminingKayakClassifications.aspx
www.soundrowers.org/BoatClasses.aspx
www.blackburnchallenge.com/kayak_class.html

Í Tom Cartmill kerfinu eru þrír flokkar:
(a) Sjókayakar, með L/W < 9,25
(b) Hraðskreiðir sjókayakar, með 9,25 ≤ L/W < 11
(c) „High performance“ sjóför, með L/W ≥ 11

Með samanburði á okkar flokkum við kerfi Tom Cartmill má færa rök fyrir því að Flokkur-1 hjá okkur samsvari (c) og Flokkur-2 samsvari (a)+(b).
Keppnisnefnd hefur ákveðið að hafa hliðsjón af hlutfalli L/W við flokkun og miða við að bátar í Flokki-2 hafi hlutfall L/W < 11. Bátar með L/W ≥ 11 eru í Flokki-1.

Þessi skilgreining leiðir til sambærilegrar flokkunar og áður. Nokkur umræða hefur verið um Kirton-Inuk, samkvæmt þessari reglu mun hann enn falla undir Flokk-2 því hann hefur L/W=10,6. Vallay-Rapier 20 hefur L/W= 13,8 og verður því í Flokki-1 eins og áður.

Spurt hefur verið um hvort gerður er greinarmunur á opnum og lokuðum bátum. Keppnisnefnd sér ekki ástæðu til þess að flokka opna báta á annað hátt en lokaða þegar stuðst er við L/W hlutfallið og öryggismál eru í lagi.