Hópferðir Kayakklúbbsins eru farnar á tímabilinu júní til september. Ferðirnar eru ýmist dags- eða helgarferðir. Ferðirnar eru skipulagðar á vegum ferðanefndar klúbbsins. Um er að ræða opnar ferðir, án þátttökugjalds.

Allar hópferðir Kayakklúbbsins eiga að stuðla að auknu öryggi kayakræðara og er þar lögð áhersla á samhjálp og að til staðar séu vanir kayakræðarar sem eru tilbúnir að aðstoða þá sem skemmra eru á veg komnir.

Er lögð áhersla á það að allir sem taka þátt í slíkum ferðum leggi sig fram um að gæta ekki aðeins öryggis síns heldur einnig ferðafélaga sinna, allt eftir hæfni og getu hvers og eins.

Hins vegar skal skýrt tekið fram að kayakræðari í hópferð á vegum Kayakklúbbsins ber á endanum alltaf sjálfur ábyrgð á eigin öryggi og getur ekki varpað þeirri ábyrgð yfir samferðamenn sína, Kayakklúbbinn, eða á þá sem tekið hafa að sér stjórn ferðarinnar fyrir hönd Kayakklúbbsins eða stjórn hans.

Áhersla er lögð á að allir sem koma að skipulagningu og stjórn ferða á vegum klúbbsins eru fyrst og fremst áhugamenn um kayakíþróttina, en eru ekki leiðsögumenn að atvinnu.

Hugmyndafræðin á bak við ferðir Kayakklúbbsins er að njóta íþróttarinnar á jafningjagrundvelli þar sem saman ferðast áhugafólk um kayakíþróttina og íslenska náttúru. Þrátt fyrir að í hópum sé oft mikill getumunur  milli einstaklinga, getur enginn ætlast til þess að annar maður sé einkabjörgunarsveit eins eða neins.

Fararstjóri hverrar ferðar fer með stjórn á öllu skipulagi ferðar, undirbúning, skráningu og upplýsingar um búnað, getu og sérþarfir þátttakenda, tíma og staðsetningu upphafs og endis ferðar, gististaði, samband við ábúendur, skipulag á flutningum vegna bíla, fræðslu um náttúru, sögu og þess háttar og sameiginlega dagskrá, grill og annað þess háttar.

Hlutverk fararstjóra:

 1. Geri grein fyrirferðatilhögun og erfiðleikastuðli með tilkynningum á vef klúbbsins og gefa áhugasömum færi á að senda fyrirspurnir um eðli og umfang ferðarinnar.

2. Sjá til þess eftir því sem kostur er á, að í ferðum séu hæfilega margir ræðarar með reynslu til að annast eða aðstoða við róðrarstjórn og aðstoða fararstjóra með utanumhald.

3. Fyrir utan almenna upplýsingagjöf í aðdraganda ferðar, skal fararstjóri halda örstuttan upplýsingafund á vettvangi, rétt áður en hópurinn ýtir á flot. Þar skal kynnt nýjasta veðurspá og metin áhrif hennar á sjólag. Tilgreindur skal tímarammi róðurs þann daginn.  Ítrekað skal mikilvægi þess að fólk haldi hópinn. Skal fararstjóri meta hópinn og sjá til þess að reynslumeiri ræðarar hafi auga með því að enginn verði viðskila við hópinn. Fararstjóri skal gera hópnum grein fyrir þeim öryggistækjum sem til staðar eru t.d. segja frá fjölda og gerð fjarskiptatækja, sjúkragagna o.s.frv. Fararstjóri skal gera hópnum grein fyrir hverjir gegna hlutverkum róðrarstjóra og aðstoðarmanna.  Fararstjóri og róðrarstjóri skulu vera meðvitaðir um þá ræðara sem hafa litla reynslu og gætu þarfnast meiri aðstoðar en ella.

4. Sé útséð um að ekki fáist reyndir ræðarar til að vera með í för, er fararstjóra heimilt að aflýsa ferð undir hans forsjá.

Róðrarstjóri vinnur skv. skipulagi fararstjóra en tekur sjálfstæðar ákvarðanir um öryggismál, sem eðlilega geta orðið til þess að fararstjóri þurfi að breyta ferðaáætlun. Róðrarstjóri vinnur eftir öryggisstefnu Kayakklúbbsins og stjórnar róðrarhegðun hópsins og hverja hann kveður til aðstoðar, sbr. öryggisstefnuna.

Við róðrarstjórn í sumarferðum skal ávallt fylgja Öryggisstefnu félagsróðra, sem er aðgengileg á vef Kayakklúbbsins.  Sjá nánar: Öryggisstefna félagsróðra

Róðrarstjóri skal vera á samþykktum róðrarstjóralista stjórnar Kayakklúbbsins, sjá nánar í Öryggisstefnu félagsróðra.

Róðrarstjóri hefur aðgang að VHF talstöð á vegum stjórnar klúbbsins fyrir allar þær ferðir sem Ferðanefnd skipuleggur. Jafnframt geymir formaður Ferðanefndar tvær UHF talstöðvar í eigu Kayakklúbbsins. Fararstjóri getur tekið að sér hlutverk róðrarstjóra ef viðkomandi er samþykktur af stjórn.

Ferðanefnd Kayakklúbbsins leggur áherslu á að allir haldi hópinn.  Komi upp óhapp eða slys stjórnar fararstjóri og/eða róðrarstjóri aðgerðum á vettvangi. Stjórn aðgerða getur falið í sér að kalla á utanaðkomandi hjálp.

Allir þátttakendur

Gerðar eru kröfur til allra þátttakenda að þeir kynni sér útbúnaðarlista á heimasíðu klúbbsins og búi sig sem best út frá upplýsingum sem þar er að finna. Í ferðum Kayakklúbbsins er skylda að nota björgunarvesti og sjókayak með a.m.k. 2 lokuðum hólfum fyrir utan mannop og með dekklínum.

Gerðar eru kröfur til allra þátttakenda í sjó- og vatnaróðrum að þeir hafi farið á sjókayak nokkrum sinnum og/eða sótt byrjendanámskeið. Allir þátttakendur í sjó– og vatnaróðrum verða skilyrðislaust að kunna félagabjörgun, þ.e.a.s. geta bjargað sér sem og bjargað öðrum. Mælt er eindregið með að allir þátttakendur hafi tekið amk eina björgunaræfingu á árinu á sjó.

Þátttakendur eru eindregið hvattir til að skrá sig tímanlega í ferðir til að auðvelda fararstjóra skipulag. Þeir nýliðar sem aldrei hafa ferðast með klúbbnum, lengra eða styttra, skulu gera grein fyrir reynslu og búnaði sínum með því að senda fararstjóra tölvupóst eða með símtali.

Ábyrgð:

Fararstjóri, róðrarstjóri, aðstoðarmenn eða Kayakklúbburinn bera ekki skaðabótaábyrgð á þátttakendum ef slys verða í ferðum og brýnt er að þátttakendur séu vel meðvitaðir um að þeir ferðast með Kayakklúbbnum á sína eigin ábyrgð. Eigi að síður beinir Kayakklúbburinn þeim eindregnu tilmælum til allra þátttakenda að þeir fylgist hver með öðrum í anda góðrar félagavitundar og hafi eigið öryggi sem og hópsins alltaf í fyrirrúmi.