Image
Aðalfundur Kayakklúbbsins var haldinn með pompi og pragt 12. febrúar.  Mæting á fundinn var í góðu meðallagi eða 25 manns.  Engin stórtíðindi urðu, en almennar og góða umræður.  Þau nýmæli voru tekin upp að ársreikningur var ekki prentaður og innbundinn, heldur farið í gegn um hann vörpuðum upp á vegg og hann er hægt að nálgast á vefnum okkar með smellum á "Klúbburinn" - "Stjórn" - "Ársreikningur 2008".  Þar gefur að líta fróðlegar upplýsingar eins og reikninga klúbbsins fyrir 2008 sem og skýrslur nefnda.  Fundargerð aðalfundarins má sjá með því að smella á "Read more"
 
PG formaður setti fund og kynnti ársskýrslu og -reikninga. Farið var yfir skýrslur nefnda og helstu viðburðir ársins reifaðir.
Eftirfarandi breytingar voru gerðar á stjórn: Anna Lára Steingrímsdóttir gengur úr stjórn og í hennar stað kemur Lárus Guðmundsson. Haraldur Njálsson og Örlygur Sig hafa hlutverkaskipti innan stjórnar.

Ný stjórn er því:
Páll Gestsson formaður
Örlygur Sigurjóns. varaformaður
Guðmundur Breiðdal gjaldkeri
Sæþór Ólafsson ritari
Haraldur Njálsson meðstjórnandi
Lárus Guðmundsson meðstjórnandi

Lárus kynnti sig stuttlega og var boðinn velkominn í stjórnina.
Umræða fór fram um stjórnina og minnkandi hlutfall straumfólks í henni með brotthvarfi Önnu Láru. Haraldur Njálsson er þó ekki síður fulltrúi straums en sjávar. Umræða spannst um aðgengi að Elliðaánum og þau skaðvænlegu áhrif sem breyttur keyrslutími virkjunarinnar hefði haft á nýliðastarf í straumnum. Þorsteinn Guðm. benti á að viðræður hefðu átt sér stað við borgarfulltrúa, stjórnarformann OR og formann ÍTR ásamt fleirum til að fá þessu breytt með því t.d. að hleypa vatni á til kl. 20 á kvöldin í stað 16 eins og nú er. Andri benti á að innan stjórnar Stangveiðifélags Reykjavíkur væri ekki mótstaða við kayakfólk. Fundurinn var sammála því að stefnt skyldi að því að bæta stöðuna hvað þetta varðar og sækja það mál áfram að fá keyrslutíma breytt.  
Töluvert var rætt um keppnismál þ.e. hvort áfram skyldi vera það fyrirkomulag að láta 3 bestu keppnirnar hvers keppanda gilda til Íslandsmeistara í sjókayak. Rúnar P. formaður keppnisnefnda hefur m.a. haft samband við vestan- og austanmenn sem hefðu verið á móti 5/5 kerfinu. Fundurinn var sammála um að keppnisnefnd skoðaði málið nánar, í samvinnu við önnur kayakfélög á landsbyggðinni.
Öryggismál kayakmanna voru rædd og talinn upp búnaður og ráðstafanir til að auka öryggi í ferðum, einkum sjóferðum. Fundurinn var sammála því að halda þyrfti áfram á þessari braut, en meðal þess sem hefur verið gert á síðasta misseri er kaup klúbbsins á handtalstöðvum til notkunar í félagsróðrum og ferðum klúbbsins ásamt því að búið er að gera öryggisstefnu félagsróðra og öryggisstefna klúbbferða verður kláruð fyrir vorið.  Einnig verður s.k. SPOT gps senditæki keypt til að stuðla enn frekar að öryggi í ferðum.
Umræða spannst um húsnæðismál og því lýst að fátt myndi gerast í skipulagsmálum borgarinnar næstu misserin og því yrði varla mikilla breytinga að vænta í framtíðarhúsnæðismálum klúbbsins ef ekkert nýtt kæmi upp.  Það síðasta sem gerðist í þeim efnu var að Borgin er búin að slá af vegna kreppu fyrirhugaða byggingu fyrir sjósport sem átti að rísa í Nauthólsvík.  Í bígerð eru þó verkefni á vegum húsnæðisnefndar og var fundurinn sammála um að bæta þyrfti aðstöðuna í Geldinganesi og efna til tiltektardags/daga í vor og framkvæmdadaga (sjá skýrslu húsnæðisnefndarí í ársskýrslu) Bent var á að klúbbfélagar ættu að vera vakandi yfir umhverfinu, innan húss sem utan, og ganga aðeins betur um og hirða um búnað klúbbsins af alúð, báta jafnt sem flíkur. Reynir Tómas vitnaði um bágt ástand klúbbbáta. Umræða spannst einnig um að margar hugmyndir hefðu komið fram um ýmis mál klúbbsins og langoftast væru þær studdar af stjórn og hvatt til að hugmyndasmiðir fyndu leiðir til að koma þeim í framkvæmd. Guðmunudur Björgv. benti á að áður fyrr hefði fólk gengið til verks og klúbburinn gengið fyrir þessari orku.
Næst var rætt um ferðalög og Gísli F. kynnti hugmyndir um raðróður um Ísland í 63 áföngum ofl., en þetta mál hefur verið til nokkurrar umræði á korkinum upp á síðkastið. Sveinn Axel benti réttilega á að fara þyrti varlega því ýmsar leiðir væru einungis fyrir vana. Spurning væri hvort klúbburinn ætti að vera að auglýsa ferðir sem hentuðu ekki nærri því öllum. Fundurinn var sammála um að upplýsa ætti lesendur vefjarins um hvað um ræddi til að minnka líkurnar á því að þetta yrði til þess að menn ætluðu sér um of.
Umræða fór nú fram um upplýsingar um ferðaleiðir og hvað væri hægt að nálgast af því taginu hjá klúbbnum. Samþykkt var að eðlilegt væri að ritnefnd safnaði meira efni um þessi mál og setti á vefinn. Upp kom hugmynd um gagnabanka um fjörulendingar og gistimöguleika og bent á starf Reynis Tómasar fráfarandi form ferðanefndar við að hafa samband við ófáa bændur upp á þessi mál að gera, ferðafélögum klúbbsins til hagræðis.  Hann mun vera að taka saman þennan fróðleik og vonandi fer hann á heimasíðuna sem fyrst.
Hilmar spurði hvort skotveiðimenn, reynslulausir en áhugasamir um kajaka gætu nálgast fræðslu áður en þeir færu að plaffa.  Hann bauðst til að senda reynslusögur til birtingar á vefnum okkar.
Ólafur B. sagði frá ríkissstyrk sem klúbburinn hefði fengið til ungliðastarfs og hugmynd um að kaupa róðrarvél fyrir hann. Vel var tekið í það og mun hann vinna það verk áfram með stuðningi stjórnar.
Örlygur sagði frá boði Landhelgisgæslunnar um að félagar í Kayakklúbbnum væru velkomnir í kynningu á umgengni um þyrlur sem myndi enda á verklegri æfingu. Langflestir lýstu áhuga á að þiggja þetta boð.
Ólafi B var  í lokin afhentur bikar fyrir útnefninguna Kayakmaður ársins 2008 og u.þ.b. tveggja tíma fundi var slitið í framhaldinu.