Ísbúinn

Róður í Karlsdrátt helgina 27.-28. ágúst 2005.

Veðurspáin var ekki hagstæð og vorum við aðeins tveir félagar sem mættum til brottfarar á laugardagsmorgni og Reynir Tómas til skrafs og ráðagerða. Auk undirritaðs var í ferðinni Ágúst Ingi Sigurðsson, Vestmannaeyingur að uppruna, á hvítum bát, heimasmíðuðum í Namibíu.

Vindur var hvass norðaustan við Hvítárbrú a.m.k. 6 gömul vindstig og þegar við vorum að basla við að komast úr aðgrunnri fjörunni bar þar að bíl með 3 kayaka á toppnum. Þar var ferðagarpurinn Ólafía Aðalsteinsdóttir ásamt tveim öðrum og ýttu þau okkur á flot en þau höfðu dvalið í skála um nóttina og hættu við að fara vegna veðurs enda höfðu þau ætlað fram og til baka samdægurs.

Það var nokkuð erfitt að þræða ána í þessum vindi án þess að lenda á grynningun og þegar út á vatnið kom var aldan hvöss og gaf yfir bátana að framan. Reynt var að halda sig austan megin þar sem aldan var minni en þar eru meiri grynningar enda rennur jökulsáin Fúlakvísl þeim megin í vatnið. Á einum stað var lágt sandrif frá austurbakkanum nær yfir vatnið og bárum við bátana yfir. Ferðin tók 4 1/2 tíma og vorum við lúnir þegar lent var í Karlsdrætti um 6 leytið, en þar er skjólsælt í norðlægri átt og var einnig nokkuð farið að lægja. Við settum upp tjöldin og röltum um dalverpið. Þarna var talsvert af berjum en þó ekki svart. Við elduðum ríflegan skammt af mat sem við snæddum af góðri lyst úti við og sólin settist fljótlega bak við jökuinn. Þá var ekki eftir neinu að bíða að skríða ofan í svefnpokana og leggjast til svefns kl. 9 enda farið að kólna. Undirritaður var nokkra stund að fá tilfinningu í tærnar eftir vosbúð dagsins.

Um miðja nótt líklega milli 2 og 3 vaknaði ég við eitthvað. Það var orðið stillt veður, svolítil gola og myrkur þannig að rétt sá handa skil. Það heyrðist eins og gengið væri fram með tjaldi mínu og það brast í víðikvistum. Líklega kind - og þó nei það eru ekki kindur í Karlsdrætti, eða Ingi, nei hann svaf í tjaldi sínu. "Hver er þar" sagði ég - ekkert svar - eða rebbi að ná sér í nestið í fortjaldinu, ég sló á ytri tjalddúkinn en enginn heyrðist stökkva frá. Ég kom mér aftur notalega fyrir og hlustaði. Golan datt niður og allt varð hljótt. Þá skyndilega kvað við brestur í skriðjöklinum og svo drunur sem voru eins og hljóðið varpaðist fjalla milli undir jöklinum. Ég sofnaði á ný, öruggur í faðmi fjallanna.

Gæsir vöktu okkur kl. 6 og að loknu heitu kornflexi og fleira óvenjulegu nesti var róið að stáli skriðjökulsins. Veður var nú bjart og stillt enda þótt spáð hafi verið SA-roki og rigningu! Við urðum vitni að íshruni rétt áður þannig að við hættum okkur ekki of nærri. Nú var ljúfur róðurinn í blíðunni til baka að brúnni yfir Hvítá. Það einkennilega var að við sáum sandrifið ekki aftur sem við höfðum gengið yfir daginn áður!

Í hádeginu kvöddumst við ferðalangarnir með "café au lait" í sjoppunni við Geysi.

Gísli H. Friðgeirsson.

Myndasafn : {2005-Hvitavatn}