Þetta hafðist. Maggi útvegaði tvo auka plast Romany og við fórum þrír fyrsta legg á föstudagskvöldinu (9.júní 2017), ég, Bjössi og Tobbi. Við skildum bíl eftir við gömlu Markarfljótsbrúnna en fórum svo upp í Bása þar sem var sett á flot. Fyrsti leggur var 30km og vegna þess að ég vissi ekki hvernig myndi ganga niður sandana tók ég allan viðlegubúnað með og báturinn var þ.a.l mjög þungur. Það gerði að verkum að nokkrum sinnum þurfti ég að standa upp og færa bátinn þegar ég rak upp á grynningar. Áin skiptist reglulega í tvennt og stundum þrennt og þá þurfti að meta mjög fljótt hvaða áll væri vatnsmestur því að þeir minni gætu helmingast neðar eða sameinast öðrum. Nokkrum sinnum tókum við ranga leið en sluppum við mikið basl, myndi samt ekki mæla með þessu fyrir valkvíðna :) Klukkan var orðinn hálftvö um nótt þegar við við komum að bílnum en þá áttum við eftir að keyra aftur uppí Bása, tjalda og grilla. Held að klukkan hafi verið orðin sex um morgun þegar ég lagðist á koddan eftir frábæran dag.

fyrsti.jpg



Á laugardaginn var sofið út en uppúr hádegi pökkuðum við saman og keyrðum niður að ós. Veðurspáin var slæm þannig að við höfðum ákveðið að róa ekki til eyja þann daginn en við vildum skoða brimið og það leit ekki vel út. Spáin fyrir sunnudaginn var mjög góð en Bjössi hafði ekki kost á að róa þá og ákvað að kalla þetta gott. Við Tobbi ákváðum að taka næsta legg niður að ósnum á laugardeginum og skildum bíl eftir við ósinn en Bjössi skutlaði okkur aftur að brúnni. Þarna niðurfrá er áin mun vatnsmeiri en þar sem við hófum ferðina og það var auðveldara að forðast strand á seinni kafla fljótsins. Talsverður straumur var við stólpa brúnna og meira að segja hægt að sörfa aðeins öldu við gömlu brúnna

bru.jpg



Nálægt ósnum lá fullt af selum upp á sandinum og hef ég aldrei séð svona marga á einum stað. Urturnar voru með stálpaða kópa og hersingin fylgdi okkur alveg til leiðarenda. Brimið í ósnum var ógnvænlegt og það var auðveld ákvörðun að pakka saman og kalla þetta dag.

annar.jpg



Þorbjörn fór heim á laugardagskvöldið en ég gisti í Fljótshlíð þar sem að fljölskylda og vinir voru í útilegu. Eymi hafði meldað sig með í róðurinn til Eyja og við hittumst á Hvolsvelli um kl 10 á sunnudagsmorgninum þar sem Eymi kom í minn bíl en hans fjölskylda sem var með í för fór yfir með Herjólfi. Frábært að hafa reynslubolta eins og Eyma með í svona ferð. Brimið leit mun betur út frá landi og veðurspáin var góð en það átti að hvessa seinna um daginn þannig að við þurftum að drífa okkur til að sleppa við hvassan mótvind á leiðinni. Við settum á flot á sama stað og ég hafði tekið upp daginn áður en það er örlítið ofan við ósinn. Straumurinn var þónokkur alveg út í sjó og þegar við komum nær sáum við að brimið var stærra en það hafði virst frá landi. Eymi var rétt á eftir mér og fyrir framan mig var alda sem reis óþægilega hátt en brotnaði áður en hún kom að mér. Ég komst í gegnum löðrið og sá að Eymi var á sínum stað líka. Þá réri ég eins hratt og ég gat til að komast yfir næstu öldu áður en hún brotnaði og hafði enn straum með mér. Loks kom aldan og stækkaði, og stækkaði og rétt áður en hún brotnaði krossbrá mér þegar selur stökk útúr öldunni beint í áttina að mér og við rákumst næstum því saman! Ég velti því fyrir mér hvort að þetta hafi verið leikur hjá selnum en þarna er mikið grugg útaf brimi blandað við jökulvatn en ég veit ekki hversu vel þeir sjá neðansjávar við svona aðstæður. Svona lagað hef ég aldrei séð áður en hafði ekki mikinn tíma til að hugsa um það því að sekúndu seinna fór aldan undir mig og brotnaði en ég datt fram af réttu megin við og lenti með stóru skvampi. Eymi var fyrir aftan mig og ég leit strax til baka en sá þá bátinn hans næstum lóðréttan allan á lofti. Aldan hafði brotnað á Eyma, keyrt hann í afturábak kollhnís og loftið í bátnum gerði það að verkum að hann skaust upp eins og ofvaxinn korktappi. Ég hef oft séð Eyma bjarga sér á veltu en held að í þetta skiptið hafi hann orðið flugveikur því hann losaði sig úr bátnum :) Vatnsflaumurinn bar okkur frá mestu brimsköflunum þannig að félagabjörgun var auðveld og eftir þetta óvænta ævintýri gátum við haldið áfram ferð okkar til Eyja. Sjólagið á leiðinni var mjög skemmtilegt, undiralda og smá vindur á móti en við héldum fínum ferðahraða. Við rérum á milli Bjarnareyjar og Elliðaeyjar og hægðum aðeins á ferðinni þegar við komum að eyjunum enda þurfti að mynda dýrðina og skoða vel. Eftir stutt stopp í helli sem ég hélt að héti Sönghellir en var tjáð í Vestmannaeyjum að héti Klettshellir, rérum við inn í höfnina, Þar kvaddi ég Eyma eftir frábæran dag og eftir smá snarl tók ég Herjólf til baka.

thridji.jpg



Þetta var virkilega skemmtileg ferð en plastbátur er alger nauðsyn í ánni ;)