Sept/okt  2014
Fararstjóri: Örlygur Sigurjónsson

Sem aðdraganda að Friðarsúluróðri var settur upp dagskrárauki undir yfirskriftinni Nátbuxnaróðrar.  Þetta urðu þrír róðrar í kvöldmyrkri 17. og 24.  september og endaði með tjaldferð þann 1. október .  

Mæting var alveg ágæt,  10 og 8 og en svo 3 í tjaldferð.   Um þá ferð var skrifað í dagbókina :

 

„…komu þrír, allir með viðlegudót, þannig að stefnan var sett beint á Þerney, en sá stutti túr var sýnd veiði en ekki gefin. Of mikill sjór norðan Geldinganess allt inn á Þerneyjarsund og brimlæti. Það þurfti því þrjár tilraunir til að komast út í eyju, eftir viðsnúning tvívegis, þar af einu sinni alla leið heim í kaffistofu, þar sem félagar kláruðu fyrir mér ömmusnúðana sem ég ætlaði að hafa í nesti..

En þetta hafðist að síðustu og við tjölduðum á eynni austanverðri og höfðum það bara nokkuð gott. Róið til baka í morgun í ustankalda.“

„Stutt og eftirminnileg ferð er að baki undir öruggri stjórn Örlygs.

BAKKA! æpir hann og jafnskjótt má sjá samtaka áralag markvisst aftur á bak eins og í vel æfðum dansflokki og við rennum inn í skjólið við fjöruna að baki á ný. Við höfðum fylgt fjörunni frá oddanum við "Veltuvík" þar til skugginn af Helguhól skreið fram á sjóinn og lentum skyndilega þá í stríðum vindstreng og reiðilegu sjólagi. Ferðin var góð æfing í að meta hvenær ekki verður aftur snúið. Málið snýst ekki um hvort hópurinn muni komast næsta áfanga, heldur hvernig óvænt atvik verði leyst.

Við hörfuðum til baka í kaffigáminn eftir að hafa bakkað og snúið við í annað sinn norðan við Geldinganes. Það var hrollur í okkur eftir að hafa svitnað í hviðunum, við sátum við borðið og ég var farinn að geispa enda kominn venjulegur svefntími hjá mér, en kakóbollar yljuðu okkur vel. Það var ekki á dagskrá að fara heim í hlýja rúmið sitt, vindhviðurnar voru orðnar mildari, ljósið á pallinum var slökkt og róið á ný út í myrkrið.

Um tíma stefndum við á að fara um Þerneyjarsund, norðan við eyjuna í skjóli og skjótast svo fyrir vestureindann inn í víkina. Sú áætlun breyttist þegar við þeyttumst inn fyrir Þerney í vaxandi vindi og ruglandi sjólagi og tókum við land skammt sunnan við kofann.

Það var góð æfing fyrir hvern og einn að setja tjald sitt upp hjálparlaust í vindinum og þegar ég skreið inn í Helsport tjaldið góða var fjarri mér að öfunda ykkur sem kúrðuð í mjúkum rúmum í of heitum svernherbergjum.“

Myndir frá: